Margir höfðu bókað ferð til Ítalíu í sumar

Kórónuveiran setur mörg ferðaplön úr skorðum.
Kórónuveiran setur mörg ferðaplön úr skorðum.

Töluverður fjöldi fólks hafði bókað ferð til Verona á Ítalíu í beinu flugi frá Akureyri í lok maí áður en kórónuveiran skall á. Ferðin er á vegum Heimsferða. Eins og fram hefur komið í fréttum er öll Ítalía nú skilgreind hættusvæði vegna kórónuveirunnar, Covid 19, sem herjar nú á heimsbyggðina. 

Veiran hefur breiðst mest út á Ítalíu af Evrópulöndunum. Flestir Íslendingar sem greinst hafa með veiruna voru að koma úr skíðaferðalagi á Ítalíu. Áætlað flug frá Akureyri til Verona er 28. maí og gist í fjórar nætur.

Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir í svari við fyrirspurn blaðsins að ferðin frá Akureyri sé vel bókuð en ekki uppseld. Hann segir of snemmt að segja til um á þessum tímapunkti hvort hætt verði við ferðina.

„Þessi ferð er eftir tæpa þrjá mánuði þannig að það er ekki alveg ljóst núna hvort þessi borg verði skilgreind sem hættusvæði á þeim tíma. Við fylgjumst náið með stöðu mála og munum upplýsa okkar farþega, ef einhver breyting verður á þessari ferð,“ segir Tómas.

Þá hafði Félag eldri borgara á Akureyri bókað ferð til Ítalíu í júní og hafði selst í þá ferð eftir því sem blaðið kemst næst. Einnig stefndi hópur af framhaldsskólanemum á Akureyri í útskriftarferð til Mílanó á Ítalíu í sumar. Þessar ferðir voru ákveðnir áður en kórónuveiran skall á og því óvíst hvort ferðaplönin standi.

Nýjast