Mikið í húfi að fá skemmtiferðaskipin

Skemmtiferðaskip í höfninni á Akureyri.
Skemmtiferðaskip í höfninni á Akureyri.

Fari svo að ekkert skemmtiferðaskip komi til Akureyrar í sumar getur norðlenska hagkerfið orðið af milljörðum króna. Þetta segir Pétur Ólafsson hafnarstjóri á Akureyri. Komum skemmtiferðaskipa til Akureyrar hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og skapað umtalsverðar tekjur fyrir ferðaþjónustuna.

Síðustu ár hafa komið fjölmörg skemmtiferðaskipa til hafna Hafnasamlags Norðurlands, Akureyrar, Hríseyjar og Grímseyjar. Pétur segir að nú þegar hafi einhver skemmtiferðaskip afboðað komu sína.

„Maí og júní verða væntanlega rólegir mánuðir hjá okkur en svo er spurning með framhaldið. Skipafélögin munu væntanlega gefa út plönin fyrir sumarið fljótlega eftir páska og þá sjáum við betur hvernig landið liggur. En á meðan getum við lítið annað gert en að bíða og vona,“ segir Pétur.

Hann segir fari allt á versta veg og það koma engin skip í sumar verður það mikið högg fyrir norðlenska hagkerfið og norðlenska ferðaþjónustu. „Þá getur tapið hlaupið á 4-5 milljörðum króna. Þannig að það er mikið undir fyrir okkur að ná bróðurpartinum af sumrinu,“ segir Pétur.

Nýjast