„Mikið hagsmunamál íbúa á svæðinu“

Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur.

„Mér þykja tillögur KEA ákaflega spennandi, framsæknar og sýna samfélagslega ábyrgð félagsins,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar, um áætlanir KEA að stækka flugstöðina á Akureyrarflugvelli. Morgunblaðið greindi frá því nýverið að KEA ætlaði að bjóðast til að reisa viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli fyr­ir eig­in reikn­ing og leigja rík­inu til að þjóna milli­landa­flug­inu.

Fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu sem hafa verið að þróa nýj­ar hug­mynd­ir um upp­bygg­ingu telja unnt að gera það á stutt­um tíma og með minni kostnaði en rætt hef­ur verið um. Ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­in Höld­ur og SBA hafa unnið með KEA að nýj­um áætl­un­um sem kynnt­ar hafa verið sam­gönguráðherra og Isa­via. Gróf skissa sýn­ir 1.500 fer­metra viðbygg­ingu norðan nú­ver­andi flug­stöðvar á Ak­ur­eyri. 1.000 fer­metra bygg­ing gæti kostað 200-250 millj­ón­ir.

Hilda Jana Gísladóttir

Forsenda fyrir frekari uppbyggingu

Þórhallur Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fagnar þessu framtaki. „Mér líst mjög vel á að félag eins og KEA eða önnur leigufélög komi að því að byggja nýja flugstöðvarbyggingu ef það getur orðið til þess að flýta fyrir uppbyggingu vallarinns. Þetta er ein af þeim hugmyndum sem við bæjarfulltrúi Gunnar Gíslason viðruðum við fjármálaráðherra á fundi með honum í haust um samgönguáætlun og óánægju okkar um forgangsröðun við uppbyggingu flugvallarins en hann tók mjög vel í í þær hugmyndir. Ég hef áður vakið athygli á því að ný flugstöðvarbygging er forsenda fyrir frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu á svæðinu því er ég gríðarlega ánægður með þetta útspil hjá KEA og vona að þeir  noti þetta ekki sem útgönguleið út úr fyrirhugaðri hótelbyggingu á Akureyri en þetta ætti einmitt að styðja enn frekar við þau áform,“ segir Þórhallur.

Þórhallur Jónsson

Aðstaðan óviðunandi

Hall­dór Jó­hanns­son, fram­kvæmda­stjóri KEA, sagði í samtali við Morgunblaðið að aðstaða í flug­stöðinni sé óviðun­andi fyr­ir milli­landa­flug. Hún sé of lít­il og geti ekki þjónað al­menni­lega meðal­stór­um þotum. Breska ferðaskrifstofan Super Break býður upp á regluleg áætlunarflug til Akureyrar og áformað er að hefja slík flug frá Hollandi í vor. Lengi hefur staðið til að stækka flugstöðina og gera nýtt flughlað, en þær framkvæmdir stranda á fjármagni. Aðstaðan þykir óviðunandi í dag. Fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu á Akureyri ótt­ast áhrif þess á starf­sem­ina að nú­ver­andi flug­stöð rúm­ar ekki farþega í milli­landa­flugi með góðu móti og hamli það frek­ari þróun þess.

Mikið í húfi

Hilda Jana segir að mikið sé í húfi fyrir Akureyri og nærsvæðið að ráðast í eflingu flugvallarins. „Uppbygging flugstöðvarinnar er mikið hagsmunamál íbúa á svæðinu sem og fyrirtækja. Þá er einnig mjög spennandi að sjá að Höldur og SBA hafi unnið með KEA að þessum hugmyndum og að þær hafi verið kynntar samgönguráðherra og Isavia. Þessi mögulega uppbygging skiptir gríðarlega miklu máli, en engu að síður þarf auðvitað að halda áfram að vinna að stækkun flughlaðs, markaðssetningu og niðurgreiðslu á innanlandsflugi,“ segir Hilda Jana.

 Verulegir annarmarkar á aðstöðunni

Eins og fram kom í skýrslu Eflu verkfræðistofu fyrir Eyþing í haust eru verulegir annmarkar á aðstöðu og aðbúnaði Akureyrarflugvallar. Í tengslum við stóraukna umferð í millilandaflugi hafa komið í ljós verulegir annmarkar á aðstöðu og búnaði Akureyrarflugvallar. Þeir annmarkar sem einkum hafa komið í ljós eru m.a. óviðunandi aðstaða í flugstöð. Flugstöðin nægir til að sinna innanlandsflugi, en brýn þörf er á stækkun til að sinna auknu millilandaflugi á komandi misserum. Í núverandi aðstöðu er ekki hægt að koma öllum farþegum, oft nærri 200 talsins, inn vegna þrengsla í vegabréfaskoðun og strætó þarf að vera til taks úti fyrir til að skýla fyrir veðri.

Nýjast