Meira líf færist í Glerártorg

Séð yfir Glerártorg.
Séð yfir Glerártorg.

Afléttun á reglum varðandi samkomubann þann 4. maí nk. mun hafa áhrif á Glerártorg þar sem leyfilegur fjöldi í verslun fer úr 20 í 50 manns en virða þarf þó áfram tveggja metra regluna. Nettó hefur þó áfram leyfi fyrir 100 manns enda um stóra verslun sem selur nauðsynjavöru að ræða.

Hárgreiðslustofur og tannlæknar í húsinu eru á meðal þess sem opna aftur og á Læknastofunum hefst móttaka sérfræðinga með eðlilegu móti. Þá hefur Verksmiðjan Restaurant opnað aftur en aðeins fyrir Take Away til mánaðarmóta en stefnt er á fulla opnun 4. maí.

Davíð Rúnar Gunnarsson, markaðsstjóri Glerártorgs, segir fólk farið að koma á Glerártorg í auknum mæli. „Við sjáum það á öllum tölum. En einnig er ljóst að aðsókn í húsið hefur haldist ótrúlega stöðug miðað við ástandið í þjóðfélaginu og t.d. sýndu talningarvélar okkur það að tölur yfir páskana slöguðu hátt í „normal“ páska hér í húsinu sem er ánægjulegt,“ segir Davíð Rúnar. Hann segir Glerártorg hafa farið ítarlega eftir öllum reglum sem settar hafa verið af yfirvöldum.

„Fólk greinilega finnur það og telur sig vera öruggt hér í húsinu.“ Davíð bendir á að gjafakortin séu nú fáanleg á heimasíðu Glerártorgs og einnig eru allar verslanir hússins farnar að bjóða uppá heimsendingu innan Akureyrar. „Það er greinilegt að það er bjartsýni í fólki eftir þessa tilkynningu ríkistjórnarinnar og almannavarna og sést það augljóslega á aðsóknartölum í húsinu. Fólk er mjög meðvitað um ástandið, sprittar sig og heldur fjarlægð sín á milli og ljóst að við getum verið stolt af þeim árangri sem náðst hefur á landinu öllu. Vonandi höldum við öll áfram að passa okkur og þá sem eru í kringum okkur og fara að settum reglum,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson.

Nýjast