Margir í neyð fyrir jólin

Velferðarráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að veita 500 þúsund króna styrk til Mæðrastyrksnefndar Akureyrar, Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins og Rauða krossins við Eyjafjörð vegna jólaaðstoðar. Eins og undanfarin ár verður samstarf um jólaaðstoð hjá félögunum fjórum.

Fulltrúar Facebooksíðunnar „Matargjafir á Akureyri og nágrenni“ veita einnig aðstoð fyrir jólin líkt og undanfarin ár. Í fyrra fengu 79 fjölskyldur aðstoð þar sem meðalfjöldinn í hverri fjölskyldu voru fjórir einstaklingar.

„Staðan er því miður svipuð og hún hefur verið. Fjöldinn fór mest í 93 fjölskyldur fyrir jólin 2016. Við settum inn auglýsinguna um miðjan nóvember og margir eru búnir að skrá sig eða láta vita af fjölskyldum í vanda. Það virðist vera ungt fólk með börn sem er á leigumarkaði sem vantar helst aðstoð,“ segir Sigrún Steinarsdóttir sem heldur úti Matargjafasíðunni ásamt Sunnu Ósk Jakobsdóttur.

Hún hvetur fólk til að hafa samband sem vill veita aðstoð. Það er hægt í gegnum síðuna á Facebook en einnig er hægt að veita styrk með því að leggja inn á reikning 1187 -05-250899-6701170300.

Nýjast