Leikfélag Dalvíkurbyggðar – Fram og aftur

Leikfélag Dalvíkur sýnir um  þessar mundir leikritið Fram og aftur
Leikfélag Dalvíkur sýnir um þessar mundir leikritið Fram og aftur

Leikfélag Dalvíkurbyggðar fær hrós í hástert fyrir metnaðarfulla og vandaða uppfærslu á verkinu Fram og aftur eftir bandaríska leikskáldið Sean Grennan. Leikritið, sem nú er sýnt í fyrsta sinn á Íslandi í íslenskri þýðingu og leikstjórn Dominique Gyðu Sigrúnardóttur, er bæði heillandi og hugljúf hugleiðing um tímann, ákvarðanir sem móta líf okkar, og þá sem við deilum þeim með.


Júlíus Júlíusson fór í leikhús og sá Fram og aftur

Sögusviðið er einfalt en áhrifaríkt: lítill bar á Dalvík árið 1986, þar sem ungi barþjónninn fær óvænta heimsókn frá eldri manni sem gerir honum undarlegt tilboð – peninga gegn því að fá að sitja eftir lokun og fá sér drykk. Fljótlega bætist annar gestur við, og áhorfandinn dregst sífellt dýpra inn í vef óvæntra afhjúpana og tilfinningalegrar spennu.

Leikarahópurinn er einstaklega vel valinn. Þórdís Ómarsdóttir fer með eitt sitt allra besta hlutverk fyrir Leikfélag Dalvíkur. Hún stígur upp, sýnir innlifun og nákvæmni í túlkun, og skilar sínu hlutverki af öryggi og hlýju. Valur Sveinsson, sem hefur áður leikið með félaginu, er traustur – túlkun hans er jarðbundin, sterk og trúleg og eins og að hann eigi ekki að gera neitt annað.

Rúnar Jóhannesson er að stíga á svið hjá Leikfélagi Dalvíkur í fyrsta sinn – Hann er stórkostlegur í sínu hlutverki, situr djúpt í karakternum og nær að miðla bæði húmor og hjartasárri speki af næmni – verð að nefna það að stundin þegar persóna Rúnars raular og dansar er ein af þessum töfrandi stundum sem hlýjar og gleður í leikhúsinu. Svo er það Elvý G. Hreinsdóttir – að leika í fyrsta sinn á sviði, í fyrsta sinn hjá Leikfélaginu – en það er ekki að sjá. Hún er eins og hún hafi aldrei gert neitt annað; nákvæm í tjáningu, eðlileg og heillandi. Það er alltaf gaman að sjá nýflutta taka þátt, velkomin Elvý mikið erum við heppin. Saman mynda þessi fjögur afar góðan hóp sem er trúverðugur, hjartahlýr og samrýmdur.

Þýðingin er lipur og lifandi, húmorinn, hlýjan og rómantíkin skila sér afar vel og staðfæring sem á stundum í svona verkum getur verið ýkt er svo fullkomlega hófleg en hittir í mark. Leikstjórn Dominique Gyðu Sigrúnardóttur er næm, vönduð og látlaus og húrra fyrir dásamlega góðri persónusköpun og vinnu. – hún nýtir rýmið vel og byggir upp taktfasta spennu sem heldur áhorfendum föngnum allt til loka. Hún sér til þess að sagan fær að njóta sín í allri sinni dýpt án þess að missa fókus eða yfirdrífa dramatíkina. Talandi um nýtt fólk í Dalvíkurbyggð og að vera heppin, Dominique er tiltölulega nýflutt hingað, velkomin frábæri leikstjóri. Ég hlakka til að sjá meira.

Það má heldur ekki gleyma hvað það er dýrmætt að sjá fólk leggja á sig vikur og mánuði í sjálfboða starfinu, gefa tíma sinn, orku og sköpunarkraft til að skapa list og upplifun fyrir samfélagið sitt. Á tímum þar sem margt keppir um athyglina og síminn gleypir stundum heilu dagana, er eitthvað svo magnað við það þegar fólk hittist, lærir texta, prófar, hlær, klikkar og heldur áfram. Svo á kvöldi eins og þessu, stígur á svið og lætur töfrana gerast. Aldrei má svo gleyma þeim fjölda fólks sem er á bakvið tjöldin, án þeirra er engin sýning og í þessu tilfelli er það með þau eins og leikhópinn, vel valið og allir að leggja sig fram um að að láta töfrana kvikna – Búningar, hár og smink verulega rétt og vandað til verka.

Fram og aftur er vel heppnað verk sem kallar á íhugun um eigin vegferð, val okkar og hvað við myndum gera ef við fengjum annað tækifæri. Með þessari sýningu hefur Leikfélag Dalvíkurbyggðar tekið skref fram á við og sýnir hér kraft sinn og gæði. Þetta er verk sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara – bæði vegna nýnæmisins, gæðanna og hjartans sem slær fast í miðju sögunnar.

Það er svo gott og nærandi að fara í leikhús og hvað þá í heimabyggð og ég elska mest við leikhúsið þegar þú áttar þig í lokin að þú hefur setið í sömu stellingu frá upphafi, hlustað og heyrt hver einasta orð, verk sem skilur eitthvað eftir. Leikmyndin hefur verið unnin af natni mörg smáatriði og þú svífur auðveldlega aftur til ársins 1986.

Takk fyrir mig, takk fyrir ykkur - ég skora á alla að leggja frá sér símann og fara í leikhús í heimabyggð.

Júlíus Júlíusson



Nýjast