20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Loka tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti
Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt fyrir sitt leyti að rekstri tjaldsvæðis við Þórunnarstræti verði hætt eftir sumarið 2020, en þá fer fram Landsmót skáta á Akureyri. Andri Teitsson, formaður Umhverfis-og mannvirkjaráðs, segir að ástæðan fyrir að þessi stefna sé mörkuð sé tvíþætt.
„Annars vegar að skátar, sem reka tjaldsvæðin bæði við Þórunnarstræti og á Hömrum, hafa bent á að aðstaðan við Þórunnarstræti sé ófullkomin og að rekstur á tveimur stöðum sé flókinn og óhagkvæmur. Hins vegar að lóðin við Þórunnarstræti er mjög áhugaverð til að byggja þar upp íbúðabyggð eða þjónustu,“ segir Andri.
Rís ný heilsugæslustöð á svæðinu?
Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur sá möguleiki verið ræddur að ný heilsugæslustöð verði reist við Þórunnarstræti en leitað er nú að lóð til að færa heilsugæslustöðina á Akureyri þar sem núverandi aðstaða þykir óviðunandi. Andri staðfestir að sá möguleiki sé fyrir hendi.
„Það kemur vel til álita,“ segir Andri og bætir við að þétting byggðar sé líka eitt af þeim verkefnum sem fjallað er um í Umhverfis- og samgöngustefnu bæjarins. „Enda leiðir það til minni eldsneytiseyðslu og mengunar, auðveldara verður að ferðast gangandi eða hjólandi, og sterkari grundvöllur verður fyrir strætókerfið.“
Skoða strætóferðir að Hömrum
Fara þarf í úrbætur á tjaldsvæðinu á Hömrum til að geta tekið á móti fleiri gestum og þarf m.a. að bæta við grasflötum og segir að Andri að gefast muni ráðrúm til þess næstu tvö sumur. Spurður hvort ekki sé óheppilegt að hafa ekki tjaldsvæði inn í bænum þar sem göngufæri er í allskyns afþreyingu og veitingastaði segir Andri svo vera.
„Það er alveg rétt að fyrir einhvern hóp ferðamanna hefur það verið kostur að geta gist á tjaldstæði sem er í göngufæri við sundlaug, miðbæ og fleira. Hugmyndir hafa verið settar fram um hvort teygja megi strætóferðir suður að Hömrum og jafnvel á flugvöllinn. En engar ákvarðanir hafa verið teknar um það,“ segir Andri Teitsson.