13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Líf og fjör á Glerárvision
Árleg söngkeppni Glerárskóla var haldin síðastliðinn föstudag í íþróttahúsi skólans. Nemendur lögðu mikið á sig við undirbúning og æfingar með umsjónakennurum sínum. Búningar voru valdir af kostgæfni, dansspor voru æfð og raddböndin þanin. Æfingahljóðver skólans var fullbókað vikuna fyrir keppnina enda leggja sig allir fram á Glerárvision.
Nemendur úr 7, 8, 9 og 10. bekk kepptu sín á milli og skemmtu áhorfendum, bæði með keppnislögunum sem voru átta talsins og ekki síður fjölbreyttum skemmtiatriðunum, tvísöng, einsöng, kórsöng og dansi. Þriggja manna dómnefnd átti það vandasama verkefni að gera upp á milli atriðanna en komst að lokum að þeirri niðurstöðu að sigurlaunin færu til 10 bekkjar RLB sem flutti kántrý smellinn Achy Breaky Heart með miklum tilþrifum og tilheyrandi línudansi.
Í Glerárvision koma nemendur og starfsfólk í betri fötum í skólann og boðið er upp á sparimat í mötuneyti skólans. Auk söngs og skemmtunar er sérstök áhersla lögð á vináttu og bræðralag á þessum hátíðardegi Glerárskóla því vinabekkir, eldri og yngri, borða og leika sér saman. Söngkeppnin Glerárvision hefur verið haldin árlega frá árinu 2003 og er skemmtilegt uppbrot á hefðbundnu skólastarfi.