Leita eftir fósturfjölskyldum á Akureyri
AFS á Íslandi vill hýsa fleiri nema á Akureyri í ár og leitar nú að fósturfjölskyldum fyrir skiptinema. Á árinu 2018-2019 voru átta skiptinemar á Akureyri og komu frá sjö mismunandi löndum; Frakklandi, Spáni, Ítalíu, Belgíu, Austurríki, Chile og Japan. Allir áttu það sameiginlegt að vera mjög ánægðir á Akueyri, bæði í skólunum sem og samfélaginu að sögn Kristínar Björnsdóttur verkefnastjóra AFS.
„Við höfum fundið tvær fjölskyldur á Akureyri í ár en viljum finna fleiri og langar okkur að sjá hvort einhverjir eru til í að opna heimili sitt og hjarta fyrir skiptanemum. Það er svo gott að vera með nokkra nema á svæðinu því þau geta þá veitt hvort öðru stuðning og fjölskyldurnar líka, fyrir utan hvað þetta gefur samfélaginu skemmtilega sýn,“ segir Kristín.
Í ágúst koma til landsins 31 erlendir skiptinemar til Íslands á vegum AFS. Nemarnir eru á aldrinum 15-18 ára, ganga í skóla út um allt land og dvelja hér í þrjá og tíu mánuði. Fósturfjölskyldur útvega nemunum fæði og húsnæði en annan kostnað greiðir neminn sjálfur, t.d. tómstundir og vasapening. AFS sér um að skrá nemann í skóla, greiðir skólagjöld og námsbækur og aðstoðar við aðlögun t.d. með námskeiðum og með hjálp tengiliðs. Fósturfjölskyldur gera starf AFS mögulegt.
„Fólk sem hefur áhuga á fólki og löngun til þess að kynnast veröldinni á að grípa tækifærið og taka að sér skiptinema. Allt sem þið þurfið er hjartarými, löngun til að læra eitthvað nýtt, kímnigáfu og sveigjanleika,“ segir á vef AFS. Þeir sem hafa áhuga á nánari upplýsingum geta haft samband við skrifstofu AFS á Íslandi í síma: 552-5450 eða á info-isl@afs.org.
„Verði hluti af okkar fjölskyldu um ókomna tíð“
Þau Katrín Guðrún Pálsdóttir og Þórarinn Valur Árnason á Akureyri hýstu Ludovicu í vetur en hún er 17 ára og kemur frá Flórens á Ítalíu. Þau segja það vera stóra ákvörðun að taka nema inn á heimilið en það sé algjörlega þess virði. „Við eignuðumst dóttur og búum að því alla tíð. Hún fór í MA og eyddi mestum tíma með öðrum skiptinemum og æfði dans hjá Steps sem hún elskaði. Við ferðuðumst mikið um landið, en það er líka áhugamál Katrínar og naut hún þess.
Katrín og Þórarinn Valur ásamt Ludovicu
Heimili okkar var opið öðrum skiptinemum og voru ófáar gistinætur og skemmtilegir krakkar sem við kynntumst. Ludo fannst margt skrítið í okkar menningu og það er áhugavert að fá aðra sýn á daglegt líf. Kveðjustundin var tilfinningaþrungin, en við vonum að Ludo verði hluti af okkar fjölskyldu um ókomna tíð,“ segja þau Katrín og Þórarinn.