Leita að Verslólaginu 2019

„Núna þarf fólk að draga upp úr skúffunum það sem það á,“ segir Axel Axelsson á Útvarp Akureyri. Myn…
„Núna þarf fólk að draga upp úr skúffunum það sem það á,“ segir Axel Axelsson á Útvarp Akureyri. Mynd/Guðrún Þórs.

Útvarp Akureyri, í samstarfi við önnur fyrirtæki á svæðinu, leita nú að Verslólaginu 2019. Lagið sem verður fyrir valinu verður flutt á á stóra sviðinu á sunnudeginum um Verslunarmannahelgina á hátíðinni Einni með öllu og fer einnig í útvarpsspilun.

Það eru Útvarp Akureyri, Viðburðarstofa Norðurlands, Las Lesas útgáfuhús, Markís og Vinir Akureyrar í samstarfi við Eina með öllu og Iceland summer Games sem að þessu standa. „Við leitum nú að lagahöfundum á svæðinu. Allir geta þó tekið þátt hvar sem þeir eiga heimili. Við þurfum að fá lagið í svokallaðri ,,demo" útgáfu, þannig að lagið sé flutningshæft í útvarpi. En það þarf ekki að vera fullbúið,“ segir á Facebook síðunni „Verslólagið 2019.“ Tíu lög komast í úrslit. Sérstakt úrslitakvöld verður haldið þar sem áhorfendur velja svo lagið ásamt sérskipaðri dómnefnd.

Axel Axelsson, útvarpsstjóri á Útvarp Akureyri, segir tímabært að Akureyringar eignist sitt eigið Verslunarmannahelgarlag. „Þetta var gert hér á árum áður í einhverju formi en ekki með þessum hætti. Núna verður samkeppni. Okkur fannst þetta vanta. Það er alþekkt að Eyjamenn eigi sitt lag fyrir hverja Þjóðhátíð og mikill metnaður lagður í það hverju sinni. Af hverju ættum við ekki að eiga okkar árlega lag? Ég held að þetta gæti orðið skemmtilegt,“ segir Axel og bætir við:

„Við viljum meina að hér á svæðinu sé nóg af mörgu hæfileikafólki til að efla til slíkrar samkeppni og núna þarf fólk að draga upp úr skúffunum það sem það á.“

Lögin skal senda á studio@utvarpakureyri.is og segir Axel að úrslitin muni liggja fyrir seint í maí. Allar frekar upplýsingar má nálgast á Facebooksíðunni „Verslólagið 2019.“

 

Nýjast