Leikskóli fyrir yngri börn á Árholti
Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt viðbótarfjárveitingu að upphæð 20 milljónir króna til endurbóta á Árholti í Glerárhverfi. Húsnæðið mun hýsa starfsemi leikskóla fyrir yngri börn á aldrinum 17-18 mánaða sem tekur til starfa þann 1. september nk. Ákveðið var að bíða með að koma upp færanlegum kennslustofum en að störfum er starfshópurinn Brúum bilið sem vinnur að tillögum um framtíðaruppbyggingu leikskólamannvirkja í bænum.
Leikskólinn Árholt mun rýma 24 börn. Ingibjörg Isaksen, formaður fræðsluráðs, segir Árholt ekki hafa komið til greina þegar til stóð að hafa færanlegar kennslustofur í Lundarseli. „Þegar möguleikinn með Árholt opnaðist fannst okkur þetta vera skynsamlegri lausn,“ segir Ingibjörg. Leikskólinn er ennfremur hugsaður sem ungbarnaleikskóli í framtíðinni.
Segir útlitið gott í leikskólamálum
Leikskólamál hafa lengi verið í brennidepli á Akureyri en færri leikskólabörn hafa komist að en vilja í leikskólum bæjarins. Opnun leikskóla fyrir ung börn er ein af þeim leiðum bæjaryfirvalda til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Spurð hvernig útlit sé með haustið segir Ingibjörg að foreldrar allra barna sem fædd eru í janúar, febrúar, mars og apríl árið 2018 hafi fengið tilboð um leikskólavist sem er mánuði yngra en í fyrra. "Þannig að þetta lítur vel út hjá okkur,“ segir Ingibjörg.