LA situr uppi með 9 milljóna króna skuld

Samkomhúsið á Akureyri.
Samkomhúsið á Akureyri.

Á aðalfundi Leikfélags Akureyrar sem fram fór nýverið var samþykkt ályktun þar sem harmað var að gömul skuld félagsins skuli enn hanga yfir LA. Samkvæmt upplýsingum blaðsins er um að ræða skuld sem hljóðaði upp á 9 milljónir kr. þegar LA gekk inn í Menningarfélag Akureyrar (MAk). Skuldirnar voru svo „frystar“ á meðan þriggja ára tilraunaverkefni MAk um sameiningu þriggja aðildarfélaga stóð yfir.

Í ályktun LA segir að í sameiningarferlinu hafi farið fram samtal milli félagsins og fulltrúa bæjarstjórnar Akureyrar sem lýstu fullum vilja sínum til að fella niður þessar skuldir að sameiningarferli loknu.

„Félagið fagnar því að nú hefur sameining gengið í garð að fullu og Leikfélag Akureyrar er tilbúið að þenja sína vængi til flugs inn í nýja og spennandi tíma andagiftar og glæsileika undir traustri stjórn sem leiklistarsvið MAk og félagsstarfsemi Leikfélags Akureyrar fellur eftir þessa sameiningu undir tekjulaus félagasamtök. Það er því harmur hreinn að íþyngjandi draugar fortíðar hangi enn yfir félaginu í formi skuldar sem Leikfélag Akureyrar bar ábyrgð á löngu fyrir tilkomu MAk. 

Félagið skorar á bæjaryfirvöld að hlúa að traustu samstarfi sínu við félagið og ljúka endurfæðingu þess með því að fylgja eftir fyrri vilja yfirlýsingum og fella niður þessar eldri skuldir félags sem ekki er lengur starfrækt í þeirri mynd sem til þessa skulda stofnaði,“ segir í ályktun LA. Oddur Bjarni Þorkelsson, formaður LA, sagði í stutti spjalli við Vikudag að þetta væru mikil vonbrigði.

„Okkur finnst skjóta skökku við að það gangi neðan í okkur steinn þegar flugtakið er jafn gott og raun ber vitni hjá Menningarfélaginu,“ segir Oddur Bjarni.

Nýjast