Kortleggja hvern leikskóla fyrir sig vegna plássleysis

Rými fyrir hvert barn á leikskólum Akureyrar er of lítið að mati leikskólastjóra.
Rými fyrir hvert barn á leikskólum Akureyrar er of lítið að mati leikskólastjóra.

Ingibjörg Isaksen, formaður fræðsluráðs Akureyrarbæjar, segir bæjaryfirvöld vera að kanna stöðuna á leikskólum Akureyrar eftir að erindi barst frá leikskólastjórum um að of lítið rými var á leikskólum.

Eins og fjallað var um í blaðinu nýverið sendu átta leikskólastjórar á Akureyri bréf til bæjarins en þar kom m.a. fram að plássleysi á leikskólum hefði, að mati leikskólakennarana, áhrif á þætti eins og geðtengsl, einbeitingu, kvíða, félagsþroska og málþroska barna. Mikilvægt væri að gera breytingar á skilgreiningu rýmis hið fyrsta.

Ingibjörg segir að verið sé að afla gagna um rými á leikskólum. „Við brugðumst strax við erindi leikskólastjórana og erum að kortleggja hvern leikskóla fyrir sig. Við erum með tvo vinnuhópa í gangi sem eru að skoða og meta framtíðarsýn í leikskólamálum bæjarins. Við áttum góðan fund á dögunum með leikskólastjórum og það er mikil samvinna á milli í að bæta úr þessu og finna lausn.

Segir málið snúið

Hvort sem viðmiðið verður fermetrafjöldi eða stöðugildi inn á hverjum leikskóla fyrir sig er eitthvað sem á eftir að ákveða,“ segir Ingibjörg. Hún segir ennfremur að málið sé snúið. „Því við viljum koma yngri börnum inn á leikskóla á sama tíma og auka þarf rýmið.“

Þá sé að vænta niðurstöðu og stefnu í þessum málum um mánaðarmótin apríl-maí.  

Nýjast