Körfuknattleiksdeild Þórs dregur kvennaliðið úr keppni
Upp er komin sú staða að körfuknattleiksdeild Þórs hefur neyðst til að draga meistaraflokk kvenna út úr keppni í 1. deild tímabilið 2019-2020.
„Þessi staða er mikil vonbrigði en liðið hefur séð á eftir mörgum leikmönnum og hópurinn því orðinn mjög fámennur. Frá síðasta tímabili hefur liðið misst a.m.k. fimm lykilleikmenn úr litlum hóp,“ segir í frétt á heimasíðu Þórs.
Horft til framtíðar.
Í yngri flokkum kvenna er að finna margar efnilegar stúlkur sem í framtíðinni eiga eftir að taka við keflinu en eru enn fullungar til að taka á sig þá ábyrgð sem því fylgir að spila í meistaraflokki. Því hefur körfuknattleiksdeild Þórs ákveðið að fara af stað með stúlknaflokk og þannig horfa til framtíðar með þeirri uppbyggingu yngri flokka kvenna að leiðarljósi. Búið er að ráða Jón Inga Baldvinsson til að stýra því verkefni, en hann er einnig starfandi yfirþjálfari yngri flokka.