13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Kallað eftir betra leiðarkerfi strætó
Samráð við börn og ungmenni um almenningssamgöngur á Akureyri varpar ljósi á ýmsar hugmyndir og tillögur að breytingum. Óskir um betra leiðakerfi og tíðari ferðir strætó eru áberandi. Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup benda í sömu átt. Akureyrarbær er því að hefja vinnu við endurskoðun leiðakerfisins. Þetta kemur fram á vef bæjarins. Þar segir að Akureyrarbær hafi undanfarna mánuði leitt reynsluverkefni um aukið íbúasamráð.
„Þótt metnaður hafi verið lagður í að gera almenningssamgöngur aðgengilegar, til dæmis með gjaldfrjálsum strætó, er vilji til að auka notkun og skoða leiðir til að bæta þjónustu, þar með talið leiðakerfið,“ segir í frétt bæjarins. Alls voru haldnir níu samráðsviðburðir í grunnskólum, félagsmiðstöðvum og framhaldsskólum og voru bæði settir saman rýnihópar og lagður fyrir spurningalisti. Hátt í 200 tóku þátt.
Bæjarráð hefur samþykkt stofnun starfshóps um endurskoðun á leiðakerfi SVA og tilnefnt Guðmund Baldvin Guðmundsson og Evu Hrund Einarsdóttur sem fulltrúa bæjarráðs í starfshópinn.
Fimmtungur í strætó vikulega
Einnig var gerð almenn könnun um strætó meðal Akureyringa og var það hluti af þjónustukönnun Gallup sem um 500 íbúar svöruðu. Um helmingur svarenda sagðist nota strætó og 19% vikulega eða oftar. Ef marka má könnunina er mjög stór hluti, eða 86% svarenda frekar, mjög eða að öllu leyti jákvæður gagnvart strætó.
Spurt var hvað kæmi helst í veg fyrir notkun á strætó og var leiðakerfið þar oftast nefnt. Raunar sögðu 89% svarenda að leiðakerfi, tímasetningar og langur ferðatími komi í veg fyrir að þeir noti strætó.