Kalla eftir umsögn Heilbrigðiseftirlitsins vegna umdeildrar steypustöðvar
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti samhljóða á síðasta bæjarstjórnarfundi að fresta afgreiðslu umsóknar um stækkun lóðar við Rangárvelli 4 og fela sviðsstjóra skipulagssviðs að kalla eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um tillögu skipulagsráðs.
Eins og Vikudagur greindi frá sl. vetur er bygging á steypustöð og steypueiningarverksmiðju fyrirhuguð á Rangárvöllum sem yrði í um 100 m fjarlægð frá íbúahverfi. Íbúar í Giljahverfi eru afar ósáttir við væntanlega byggingu. Hverfisnefnd Giljahverfis hefur fundað um málið og sent inn umsókn til bæjaryfirvalda þar sem væntanlegri byggingu steypustöðvar og einingarverksmiðju er harðlega mótmælt og segja það þvert á loforð bæjarfulltrúana ef málið nær í gegn.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir bæjaryfirvöld vilji flýta sér hægt og vanda sig í málinu. „Við ákváðum að skoða þetta með Heilbrigðiseftirlitinu hvernig þetta horfir við þeim. Eins og við teljum þá eru kvaðirnar þannig að það verði ekki komið fyrir mengandi iðnaði á þessari lóð,“ segir Guðmundur Baldvin.
Spurður út í það kosningarloforð sem oddvitar flokkana á Akureyri gáfu fyrir síðustu kosningar um að leyfa ekki mengandi iðnað á svæðinu svarar Guðmundur: „Já það er rétt að við lögðum áherslu á það en svo þarf að vinna út frá því hvað er mengandi og hvað ekki,“ segir Guðmundur.