Innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt aðgerðaáætlun vegna innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er mikilvægur áfangi í því ferli að gera Akureyrarbæ að skilgreindu barnvænu sveitarfélagi samkvæmt viðmiðum Unicef. Aðgerðirnar miða sérstaklega að bæjarkerfinu sjálfu, að gera það aðgengilegra fyrir börn og tryggja að raddir barna séu teknar með í umræðu um málefni sem snerta þau, er segir í frétt á vef bæjarins. Þær áherslur voru valdar eftir söfnun gagna um fjölmargt sem gefur vísbendingar um hagi og líðan barna.

„Verkefnið barnvænt sveitarfélag er tveggja ára ferli sem í raun lýkur aldrei. Á tveggja ára fresti er safnað saman gögnum um börn og þannig verður til heildstætt gagnasafn um stöðu barna og mun aðgerðaáætlun ávallt byggja á þeim. Þannig verður sífellt rýnt í breytingar í samfélaginu, niðurstöður nýrra rannsókna og tryggt að það verði haft að leiðarljósi sem er börnum fyrir bestu,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Íslenska ríkið lögfesti Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2013. Eftir lögfestinguna krafðist barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna þess að stjórnvöld gerðu markvissa áætlun um innleiðingu hans. Sveitarfélögin hafa megnið af nærþjónustu við börn á sínu borði og því er nauðsynlegt að þau innleiði sáttmálann í vinnu sína. Á vef bæjarins segir að Akureyrarbær sé fyrsta sveitarfélagið til að leggja upp í þessa vegferð og hefur Unicef á Íslandi stutt dyggilega við bakið á þeim starfsmönnum sem leitt hafa verkefnið.

Nýjast