Hvað breytist 4. maí?
Fyrsta tilslökun á samkomubanni vegna Covid-19 verður á mánudaginn kemur þann 4. maí. Þá verður almenna reglan sú að 50 manns mega koma saman í stað 20 áður. Tveggja metra reglan verður áfram í gildi meðal fullorðinna og er mikil áhersla á sóttvarnir og hreinlæti.
Samkomubannið og sóttvarnaráðstafanir hafa eðlilega haft áhrif á starfsemi Akureyrarbæjar en með breyttum reglum 4. maí verður hægt að aflétta ákveðnum takmörkunum. Smám saman færist þjónusta bæjarins til fyrra horfs, að því gefnu að ekki komi bakslag í baráttuna við faraldurinn. Á vef Akureyrarbæjar er stiklað á stóru yfir það sem helst breytist þann 4. maí.
Öldrunarheimili Akureyrar
Heimsóknir verða leyfðar frá og með 4. maí en þó með ákveðnum takmörkunum. Almenna reglan til 17. maí er sú að nánasti aðstandandi er velkominn í heimsókn einu sinni í viku (einn og sami gesturinn fyrstu tvær vikurnar). Aðstandendur hafa fengið nánari upplýsingar og leiðbeiningar um fyrirkomulag heimsókna.
Frá 5. maí verður dagþjálfun að nýju í Lerkihlíð. Tekið verður að nýju inn í tímabundnar dvalir frá 13. maí. Nánar hér.
Áfram gildir reglan um 20 manna hámarksfjölda á hjúkrunarheimilum.
Leik- og grunnskólar
Fjöldatakmarkanir falla niður í leik- og grunnskólum og einnig í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna á leik- og grunnskólaaldri. Skólastarf verður með því sem næst eðlilegum hætti frá og með mánudeginum, þar með talin íþrótta- og sundkennsla, og falla forgangslistar almannavarna úr gildi. Foreldrar fá nánari upplýsingar frá hverjum skóla eftir atvikum.
Sama á við um starfsemi Félagsmiðstöðva Akureyrar og Ungmennahúss, venjubundin starfsemi hefst að nýju 4. maí. Hópar í virkniúrræðum fá nánari upplýsingar um fyrirkomulagið.
Velferðarþjónusta
Öll heimaþjónusta er að komast í eðlilegt horf en sóttvarnir og tveggja metra reglan verður áfram höfð að leiðarljósi. Nú er verið að hringja í fólk og bjóða því aðstoð frá og með næstu viku. Farið verður í búðir fyrir skjólstæðinga, þeir fara ekki með.
Lautin opnar 4. maí og verður opið kl. 10-13. Starfsfólk stýrir aðgangi þannig að aldrei séu fleiri en 10 í húsi í einu. Boðið verður upp á einfalda máltíð.
Skólaþjónusta fyrir fötluð börn í Þórunnarstræti 99 opnar að fullu aftur.
Plastiðjan Bjarg – Iðjulundur og Skógarlundur, miðstöð virkni og hæfingar, opna aftur fyrir sína notendur. Annað í starfsemi fjölskyldusviðs verður með hefðbundnum hætti.
Félagsstarf eldri borgara og Punkturinn
Opið verður í félagsmiðstöðvum eldri borgara í Víðilundi og Bugðusíðu kl. 9-13 frá og með 4. maí. Morgunkaffi, spjall og hægt að panta hádegisverð. Engir viðburðir út maí, allar handverksstofur lokaðar en boðið upp á hreyfingu úti á þriðjudögum og fimmtudögum. Nánari upplýsingar í síma 595-8021 (Víðilundur) og 462-6055 (Bugðusíða).
Punkturinn opnar að nýju 4. maí kl. 13. Nánari upplýsingar um opnunartíma eru hér.
Söfn og íþróttamannvirki
Söfn Akureyrarbæjar opna aftur 4. maí. Starfsfólk þeirra hlakkar mikið til að opna dyrnar og fá gesti þótt þjónustan verði áfram takmörkuð vegna samkomubanns. 50 manna hámarksfjöldi er í húsunum, mikil áhersla er lögð á hreinlæti og sóttvarnir og eru gestir beðnir um að virða tveggja metra regluna.
Hjá Amtsbókasafninu hefur skiladagur safngagna verið færður til 14. maí. Nánari upplýsingar um þjónustu Amtsbókasafnsins fást með því að smella hér.
Íþróttamannvirki opna aftur fyrir starfsemi grunnskóla og íþróttastarfsemi barna í leik- og grunnnskólum. Skipulagðar æfingar íþróttafélaga fyrir 16 ára og eldri verða með skertu sniði í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis. Almenningstímum í íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar er lokið þennan veturinn, þar með talið í Boganum.
Sundlaugar verða áfram lokaðar.