Hús vikunnar: Þórunnarstræti 97

Þórunnarstræti er ein lengsta gata Akureyrar. Hún þverar Brekkuna frá Miðhúsabraut ofan Búðargils í suðri að Gleráreyrum í norðri. Gatan er númeruð upp að 136 en lægsta númer við hana er 81. Mögulega hafa númerin miðast við húsaröð langleiðina suður að Naustum.

 Í Manntali 1930 teljast tvö hús standa við Þórunnarstræti. Hvorugt þeirra er númerað, en þau eru kennd við Eðvald Möller og Svanberg Sigurgeirsson. Hið síðarnefnda, Þórunnarstræti 97, er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með háu risi. Kvistur með hallandi þaki er á norðurþekju hússins auk inngönguskúrs. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Húsið var reist 1926 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar.

Haustið 1925 fékk Svanberg Sigurgeirsson, vatnsveitustjóri frá Lögmannshlíð, leyfi til að reisa steinsteypt íbúðarhús 8 x 7,5 m í suðausturhorninu á svonefndu Laxdalstúni sem hann hafði fest kaup á. Nefndin lýsti því yfir að „hún skoðar byggingu á þessum stað sem grasbýli, þar sem hann liggur fyrir utan kaupstaðarlóðina og hið kortlagða byggingarsvæði“. (Bygg.nefnd Ak. 1925: nr.574).

Þarna var stundaður búskapur fyrstu áratugina en sennilega hefur honum verið sjálfhætt þegar byggðin fór að nálgast og túnið m.a. lagt undir tjaldsvæði. Enn stendur steinsteypt bygging sunnan við húsið sem líkast til hefur verið nýtt undir skepnur eða hey. Ekki hefur greinarhöfundur fundið heimildir fyrir því, að húsið hafi borið bæjarnafn. Svanberg var t.d. í blöðum einfaldlega kenndur við Þórunnarstræti. Elstu heimildir sem timarit.is finnur um Þórunnarstræti númer 97 eru frá mars 1955. Árið 1966 var húsinu breytt eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar. Var þá byggður kvistur á húsið og forstofubygging á norðurhlið og fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Húsið virðist í góðu standi og lítur vel út og sömu sögu er að segja um lóðina umhverfis. Myndin er tekin 19. júní 2015.

Nýjast