Hús vikunnar: Þórunnarstræti 89
Þórunnarstræti sem liggur yfir þvera og endilanga Brekkuna byggðist að mestu árin 1945-65. Sunnarlega við götuna standa þó tvö hús sem eru ívið eldri, fyrrum grasbýli sem kennd voru við þá Svanberg Sigurgeirsson og Eðvald Möller, í Manntali 1930. Fyrrnefnda húsið tók ég fyrir í síðustu viku en nú er komið að „Möllershúsi“, sem hefur númerið 89 við Þórunnarstræti.
Árið 1927 fékk Pálína Jóhannsdóttir Möller leyfi til að byggja hús 7,5x7,5m á erfðafestulandi sínu og húsinu fylgdi 400 fermetra lóð. Teikningar að húsinu gerði Sigtryggur Jónsson. Þórunnarstræti 89 er tvílyft með lágu risi auk viðbyggingar og áföstum bílskúr. Allt er húsið klætt utan með sverum bjálkum en lengi vel var húsið klætt einskonar eftirlíkingu af múrhleðslu. Þannig lítur húsið út eins og bjálkahús en er líkast til byggt á hefðbundinni timburgrind- en viðbygging er hlaðin úr múrfylltum plastkubbum. Þverpóstar eru í gluggum hússins en bárujárn á þaki.
Húsið hefur að líkindum verið byggt sem einskonar grasbýli, en ekki virðist það hafa borið bæjarnafn. Eðvald og Pálína Möller eru einfaldlega kennd við Þórunnarstræti, líkt og Svanberg Sigurgeirsson. Ein elsta ritaða heimildin sem timarit.is finnur um húsið er frá 10. september 1927, þar sem sagt er frá ákvörðun bæjarstjórnar, að leggja vatnsleiðslu að húsi frú Pálínu Möller við Þórunnarstræti.
Númerið 89, við Þórunnarstræti, kemur fyrst fyrir í blaði árið 1970 en sennilega hefur húsið fengið númer um líkt leyti og hús Svanbergs Sigurgeirssonar. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og fyrir rúmum áratug fékk það algjöra yfirhalningu og andlitslyftingu. Það er því allt sem nýtt og er frágangur á viðbyggingu og tengingu við upprunalegt hús til fyrirmyndar. Lóðin er einnig í góðri hirðu. Þessa mynd er tekin 19. júní 2015.