13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Hús vikunnar: Þingvallastræti 18
Þingvallastræti 18 reistu árið 1935 þeir Sigurður O. Björnsson prentsmiðjustjóri og bróðir hans, Þór O. Björnsson, lengi deildarstjóri hjá Véla- og varahlutadeild KEA. Þeir fengu byggingaleyfi fyrir húsi á tveimur hæðum á kjallara, byggðu úr steinsteypu 11,2x8,85m að stærð. Teikningarnar að húsinu gerði Gunnar R. Pálsson.
Þingvallastræti 18 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með lágu valmaþaki. Á bakhlið (norðurhlið) er viðbygging og eru þar svalir til vesturs. Krosspóstar með skiptum þverfögum eru í flestum gluggum hússins, bárujárn á þaki og steiningarmúr á veggjum. Byggt var við húsið í áföngum árin 1942-47, eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og Guðmundar Gunnarssonar. Árið 1958 var þaki breytt úr flötu í valmaþaki og fékk húsið þá það lag sem það síðan hefur.
Þeir bræður, Sigurður og Þór O. voru synir Odds Björnssonar, sem stofnsetti hið valinkunna Prentverk Odds Björnssonar (POB), eitt af helstu stórfyrirtækjum Akureyrar á 20. öld. Sigurður O. tók við rekstri föður síns á prentsmiðjunni og stýrði henni um árabil. Hann var kvæntur Kristínu Bjarnadóttur og bjuggu þau hér um áratugaskeið. Árið 1986 festi Skákfélag Akureyrar kaup á efri hæð hússins og hafði þarna aðsetur í rúman áratug. Nú eru þrjár íbúðir í húsinu.
Þingvallastræti 18 er stórbrotið og reisulegt hús í góðri hirðu og sómir sér vel á fjölförnum gatnamótum. Lóðin er vel gróin og í góðri hirðu og hana prýða m.a. birki- og reynitré. Ekki fer þó mikið fyrir gróanda á þessari mynd, en hún er tekin þann 10. febrúar, árið 2019.