Hús vikunnar: Strandgata 49; Gránufélagshúsin
Oddeyrartangi er nokkuð í deiglunni um þessar mundir vegna stórhuga áforma um uppbyggingu fjölbýlishúsa þar. Þær hugmyndir verða ekki reifaðar á þessum vettvangi. Hins vegar er upplagt að fjalla um hús nokkurt sem fyrir er á svæðinu, og hefur staðið þar í nærri hálfa aðra öld; nefnilega Strandgötu 49, Gránufélagshúsin.
Strandgata 49 mun vera elsta hús sem enn stendur á Oddeyri. Raunar er um að ræða þrjú byggð sambyggð hús, byggð í áföngum frá 1873 til 1885 af Gránufélaginu. Elstur er vesturhlutinn, byggður 1873 úr viðum eldra húss sem reist var á Vestdalseyri við Seyðisfjörð um 1850. Miðhlutinn, tvílyft bygging með „brotnu“ risi (mansard) gefur húsinu líklega mestan svip og var kallaður Mikla bygging. Gránufélagið var verslunarfélag stofnsett árið 1870. Helstu forvígismenn þess voru Tryggvi Gunnarsson og sr. Arnljótur Ólafsson.
Gránufélagið var afar umsvifamikið á áratugunum 1870-1900 og kannski til marks um það, að gata á Oddeyrinni er nefnd eftir félaginu. Árið 1871 keypti félagið Oddeyrina eins og hún lagði sig af Þorsteini Daníelssyni á Skipalóni og sá félagið um lóðasölu þegar byggð hófst á Oddeyrinni á 8. og 9. tug 19. aldar. Eftir aldamótin 1900 tók að halla undan fæti hjá Gránufélaginu og 1912 komst það í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana. Hafði það félag skrifstofur í húsinu fram á þriðja áratuginn. Um 1940 var húsið innréttað sem vélsmiðja og Vélsmiðjan Oddi starfrækt þarna í um hálfa öld. Húsið var þannig alla tíð verið verslunar- skrifstofu og iðnaðarhúsnæði en þarna voru einnig íbúðir um árabil.
Upp úr 1990 var húsið allt endurbyggt og innréttað sem veitingastaður. Nú er í húsinu veitingastaðurinn Bryggjan. Strandgata 49 er friðlýst bygging skv. Þjóðminjalögum. Myndin er tekin þann 9. sept. 2018.