13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Hús vikunnar: Strandgata 35
Í síðustu viku var umfjöllunarefnið eitt af elstu húsum Oddeyrar. Við höldum okkur á svipuðum slóðum og við hús á svipuðum aldri. Á austurhorni Strandgötu og Grundargötu stendur veglegt og reisulegt hús, byggt af einum helsta athafnamanni bæjarins á þeim tíma.
Strandgötu 35 reisti Jakob V. Havsteen kaupsýslumaður og útgerðarmaður árið 1888. Húsið er einlyft timburhús með portbyggðu risi og stórum miðjukvisti sem gengur gegnum risið og stendur húsið á steyptum kjallara. Þá er einnig bakálma vestanmegin, tvílyft með lágu risi. Sú bygging mun upprunalega hafa verið geymslu- og gripahús. Húsið er klætt báruðu áli og krosspóstar eru í flestum gluggum.
Auk íbúðarhússins, sem var eitt það stærsta og veglegasta á Oddeyri á sínum tíma, reisti Havsteen fjölmargar byggingar á landareign sinni sem flestar eru horfnar. Um 1900 byggði hann við húsið sólskála, einlyfta byggingu með valmaþaki, austanmegin. Lóð hússins er nokkuð stór og auk hennar átti Havsteen einnig fjöruröndina framan hússins. Allur „reki“ (rekaviður) þar varð sjálfkrafa hans eign og einnig seldi hann á tímabili sand úr fjörunni. Jakob V. Havsteen var sem áður segir umsvifamikill kaupmaður og útgerðarmaður og var auk þess bæjarfulltrúi í áratugi, sem og danskur konsúll. Hann var sæmdur svokallaðri etasráðsnafnbót árið 1907. Havsteen mun hafa búið hér til æviloka, eða til 1920.
Í stórum dráttum er húsið næsta lítið breytt frá upphafi að ytra byrði. Steinskífu, sem var á húsinu drjúgan hluta 20. aldar hefur verið skipt út fyrir málmklæðningu auk breytinga á gluggaskipan (sólskála lokað og verslunargluggum). Ýmis starfsemi hefur verið í húsinu m.a. má nefna afgreiðslu Áfengisverslunarinnar í kjallaranum. Síðustu áratugi hefur húsið alfarið verið íbúðarhús; tvær íbúðir í austurhluta og fjórar í vesturhluta. Húsið, sem er í góðu standi, sómir sér vel í glæsilegri götumynd Strandgötunnar. Myndin er tekin þann 29. mars 2020.