Hús vikunnar: Strandgata 19 (Brattahlíð)

Í síðustu viku fjallaði ég um Eyrarlandsveg 8, sem frá „fornu fari“ kallast Æsustaðir. En þau eru nokkur húsin hér í bæ sem eiga sér gömul heiti, oft bæjarnöfn, sem kannski færri vita af í seinni tíð. En þeir eru þó eflaust þó nokkrir sem kannast vel við heitið Brattahlíð á hinu ríflega 130 ára gamla timburhúsi nr. 19 við Strandgötu.

Strandgötu 19 reisti  Johan Jacobsen, norskur skipstjóri, árið 1886 og var húsið í upphafi ein hæð með háu risi. Líklega um eða upp úr aldamótum var húsið hækkað um eina hæð og fékk þá það lag sem það síðan hefur og einnig var byggt við það baka til. En húsið er tvílyft timburhús með lágu risi og á steyptum kjallara. Að norðvestan er útskot, jafnhátt húsinu, einnig einlyft bakbygging með skúrþaki. Húsið er timburklætt, fjalir eða þil á efri hæð en plötur á neðri hæð. Þverpóstar eru í gluggum en á neðri hæð „verslunargluggar“. Þar hefur verið rekin verslun eða þjónusta í yfir 100 ár, en um 1919 opnaði Brynjólfur Stefánsson frá Teigi í Vopnafirði verslun í húsinu sem hann kallaði Bröttuhlíð. Rak hann þá verslun um árabil undir því heiti og hefur húsið æ síðan kallast Brattahlíð.

Ýmis verslun og þjónusta hefur verið á neðri hæð, síðustu áratugi myndbandaleiga og handverksgallerý. Nú er í húsinu hárgreiðslustofan Funky á neðri hæð og íbúð á efri hæð. Húsið er í góðri hirðu og tekur sig vel út í götumynd Strandgötu. Myndin er tekin þann 22. júní 2011.

Lesendum er velkomið að senda höfundi fyrirspurnir, ábendingar eða annað slíkt á póstfangið hallmundsson@gmail.com

 

Nýjast