Hús vikunnar: Strandgata 11b
Við Strandgötu og víðar í bænum leynast fjölmörg bakhús (b-hús) sem sannarlega er vert að gefa gaum, engu síður en þeim húsum sem blasa við vegfarendum fremst á lóðum. Í síðustu viku vorum við stödd við Strandgötu 11 en nú færum við okkur á baklóð þess húss, nánar tiltekið að Strandgötu 11b. Strandgata 11b er einlyft steinsteypuhús með lágu og aflíðandi risi, múrhúðað og með bárujárni á þaki og einföldum þverpóstum í gluggum. Húsið var frá upphafi iðnaðarhúsnæði, byggt sem vélaverkstæði.
Strandgötu 11b reisti Óskar Sigurgeirsson vélsmiður árið 1915 og stofnsetti þarna Vélaverkstæðið Mars og starfrækti um árabil. Mun þetta hafa verið eitt fyrsta slíka verkstæðið hér í bæ; ef ekki það allra fyrsta. Þess má einnig geta, að húsið kallaðist aldeilis ekki Strandgata 11b þegar Óskar Sigurgeirsson reisti það. Sérnúmerið 11b kom ekki fyrr en löngu síðar; elstu heimildir sem finna má á timarit.is um Strandgötu 11b eru frá árinu 1983, í auglýsingum frá Gúmmíviðgerð KEA og Véladeild KEA.
Það yrði alltof langt mál að telja upp alla þá starfsemi sem farið hefur fram í Strandgötu 11b í þessari grein. En þar má nefna téð gúmmíviðgerðarverkstæði, starfrækt þarna frá því um miðja 20. öld, síðar fiskbúð frá 9. áratugnum og fram yfir aldamót, saumastofu og innréttingasprautuverkstæði. Hvort búið hafi verið í Strandgötu 11b er greinarhöfundi ókunnugt um, en upplýsingar um slíkt væru að sjálfsögðu vel þegnar, búi einhver lesandi yfir þeim. Nú er sýningarsalur eða listasmiðjan Kaktus í húsinu sem er í góðri hirðu (m.a. nýlega málað) til mikillar prýði. Myndin er tekin þann 13. nóvember 2009.