Hús vikunnar: Strandgata 11

Við Strandgötu, á milli Geislagötu og Glerárgötu standa nokkur reisuleg timburhús frá fyrsta áratug 20. aldar. Þau eru byggð á grunni húsa, sem öll eyðilögðust í stórbruna, Oddeyrarbrunanum svokallaða haustið 1906. Eitt þessara húsa er Strandgata 11.

Strandgötu 11 reisti Magnús Blöndal kennari og verslunarmaður árið 1907. Fáeinum árum síðar eignaðist húsið Óskar Sigurgeirsson vélsmiður og bjó hann þarna um áratugaskeið. Hann reisti vélsmiðju á baklóðinni árið 1915. Stendur það hús enn, og verður það „Hús vikunnar“ í næstu viku. 

Strandgata 11 er tvílyft timburhús á lágum grunni og með risi. Á vesturhlið eru svalir sem standa á stólpum og með útskornu skrauti. Bárujárn er á veggjum og þaki en krosspóstar í gluggum. Frá upphafi hefur neðri hæðin verið verslunar- og þjónusturými en íbúðir á efri hæð. Ýmis starfsemi hefur verið á neðri hæð hússins þau 112 ár sem það hefur staðið.

Ef rýnt er í gagnagrunninn timarit.is má t.d. sjá auglýsingu frá skóverslun Guðlaugs Sigurðssonar frá 1913, Verslun Karls Guðnasonar frá 1916 og á þriðja áratugnum var kaffibrennsla starfrækt í Strandgötu 11. Svo fátt eitt sé nefnt.  Lengi vel voru reknar saumastofur og fataverslanir í húsinu, fram eftir 20. öld. Húsið var löngum (og er vitaskuld enn) kallað Lögmannshlíð en það nafn gaf téður Óskar Sigurgeirsson húsinu, en hann var einmitt frá Lögmannshlíð. 

Upp úr aldamótum hlaut húsið gagngerar endurbætur að utan sem innan og þá var götuhæð innréttuð sem veitingastaður. Síðustu árin hefur hamborgarastaðurinn DJ Grill verið starfræktur á jarðhæð en tvær íbúðir eru á efri hæð. Húsið er sem áður segir, nýlega uppgert og þar af leiðandi allt sem nýtt og er til mikillar prýði. Myndin er tekin þann 24. febrúar 2019.

 

 

Nýjast