Hús vikunnar: Norðurgata 19

Við hófum árið 2020 á umfjöllun um Grundargötu 7 á Eyrinni, sem verður 100 ára á árinu og þá er e.t.v. ekki úr vegi, að færa okkur spölkorn utar á Eyrina, á horn Norðurgötu og Eiðsvallagötu. En þar stendur annað hús, sem byggt er 1920 og er þannig aldargamalt á þessu ári.

Norðurgötu 19 reisti Árni nokkur Þorgrímsson árið 1920. Húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi, útskot (stigahús) á bakhlið, bárujárn á þaki og sléttum múr á veggjum. Krosspóstar eru í flestum gluggum hússins. Upprunalega var um að ræða lágreist hús, ein hæð með lágu risi, en  ellefu árum síðar eða 1931 var byggð á húsið efri hæð og hátt ris. Þá var eigandi hússins Ingólfur Kristjánsson. Fékk húsið þá það lag, sem það hefur æ síðan. Teikningarnar að endanlegu útliti hússins gerði Halldór Halldórsson.

Húsið hefur líkast til verið byggt sem einbýli, en við breytingar eða a.m.k. fljótlega eftir þær, hefur húsinu verið skipt í tvær íbúðir. Ef heimilisfanginu Norðurgötu 19 er flett upp á gagnasafninu timarit.is eru nokkuð áberandi auglýsingar um herbergi til leigu í húsinu á árunum 1920-40. Árið 1947, er neðri hæð a.m.k., orðinn sérstakur eignarhluti (þá auglýst til sölu). Fjöldi íbúa hússins gegnum tíðina skiptir eflaust hundruðum, svo sem vænta má þegar í hlut á aldargamalt hús.

Norðurgata 19 er vel hirt og snyrtilegt hús og til mikillar prýði í götumynd Norðurgötu, sem er bæði áhugaverð og skemmtileg. Við götuna má nefnilega sjá, í grófum dráttum, sýnishorn af helstu gerðum íbúðarhúsa á síðustu áratugum 19. aldar og fram undir miðja 20. öld.  Í Húsakönnun, sem unnin var um 1995 um syðsta og elsta hluta Oddeyrar, er húsið talið hafa varðveislugildi sem hluti af merkri heild. Meðfylgjandi mynd er tekin 2. des. 2013.

Nýjast