Hús vikunnar: Norðurgata 13

Síðastliðið föstudagskvöld horfði greinarhöfundur á kvikmyndina Maverick. Sú mynd er vestri og gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna á síðari hluta 19. aldar m.ö.o. „Villta vestrinu“.  Þannig varð til hugmynd; að taka fyrir hús byggt á tímum umrædds Villta vesturs.

Norðurgötu 13 reisti maður að nafni Þorvaldur Guðnason árið 1886. Fékk hann útmælda lóðina „á milli húsa Snorra Jónssonar og Björns Jónssonar“, en þar var um að ræða Norðurgötu 11 og 17 (Steinhúsið). Sjá má hluta fyrrnefnda hússins vinstra megin á myndinni sem hér fylgir.

Norðurgata 13 er einlyft timburhús með háu risi og á háum steyptum kjallara. Á bakhlið er kvistur með einhalla, aflíðandi og nær hann að stafni. Þá er einlyft viðbygging meðfram vesturhlið. Í gluggum eru tiltölulega nýlegir sexrúðupóstar. Bárujárn er á þaki og á veggjum svokallað steinblikk.

Steinblikkið hefur verið sett á húsið á þriðja eða fjórða áratug 20. aldar. Og þess má til gamans geta, fyrst vikið var að vestrinu hér í upphafi, að steinblikkið var einmitt flutt inn frá Bandaríkjunum. Fyrir þeim innflutningi stóð húsasmiður á Oddeyri, Gunnar Guðlaugsson, á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Húsið mun upprunalega hafa verið á lágum grunni en undir það steyptur hár kjallari snemma á 20. öld. Að öðru leyti er Norðurgata 13 lítt breytt frá upphafi að ytra byrði. Fjölmargir hafa búið hér um lengri eða skemmri tíma og ekki ólíklegt, að hér hafi nokkrar fjölskyldur búið samtímis á fyrri hluta 20. aldar. Húsið hefur þó lengst af verið einbýlishús.

Norðurgata 13 er látlaust og smekklegt hús og í mjög góðri hirðu, mætti kalla „sjarmerandi“. Húsið er til mikillar prýði í einni af áhugaverðari götumyndum bæjarins. Samkvæmt lögum frá 2012, um friðun menningarminja eldri en 100 ára, telst Norðurgata 13 friðað vegna aldurs. Myndin er tekin þann 15. nóvember 2014.

 

 

 

Nýjast