Hús vikunnar: Munkaþverárstræti 5

Helstu heimildir greinarhöfundar varðandi uppruna húsa eru fundargerðir Bygginganefndar, sem varðveittar eru á Héraðskjalasafninu. Margt áhugavert kemur þar fram m.a. afgreiðsla lóðar og byggingarleyfis Friðjóns Tryggvasonar vegna Munkaþverárstrætis 5.

Vorið 1930 sótti hann um lóð við Munkaþverárstræti, þá þriðju að sunnan austanmegin, þ.e. nr. 5. En Friðjón var búsettur að Glerárbakka í Glerárþorpi og  22. apríl bókar bygginganefnd eftirfarandi, orðrétt: [...]mönnum sem ekki eru búsettir í bænum sje ekki leigðar lóðir fyrr en sýnt sje að þeir flytji í bæinn og geti reist sómasamleg hús þegar í stað“ (Bygginganefnd Akureyrar, fundur nr. 646, 1930). Gilti þá einu um hve langt frá bænum menn væru búsettir; Glerárbakki stóð rétt norðan Glerár, u.þ.b. kílómetra norðan við Munkaþverárstræti.

Á þeim tíma tilheyrði Glerárþorp nefnilega Glæsibæjarhreppi; sveitarfélagamörkin lágu um Glerá. Mánuði síðar komst bygginganefnd að þeirri niðurstöðu, að Friðjón fengi lóðina og um miðjan júní 1930 fékk hann leyfi til að byggja steinsteypt íbúðarhús. Húsið yrði ein hæð á kjallara og með portbyggðu risi og miðjukvisti, 8,2x8,2m að grunnfleti. Teikningar að húsinu gerði Halldór Halldórsson.

Sú lýsing sem gefin var upp í byggingarleyfinu á að mestu við enn í dag, enda mun húsið næsta lítið breytt frá upphafi. Húsið er teiknað sem einbýlishús, en árið 1947 þegar Viggó nokkur Ólafsson auglýsir það til sölu er það sagt tvær íbúðir. Margir hafa búið í Munkaþverárstræti 5. Má m.a. nefna þá feðga Þorstein Þorsteinsson gjaldkera og Tryggva son hans, skólastjóra og skátaforingja með meiru. Þorsteinn var frumkvöðull í hálendisferðum og einn upphafsmanna Ferðafélags Akureyrar. Munkaþverárstræti er glæst og snyrtilegt hús í góðri hirðu og það sama á við um lóðina. Myndin er tekin þann 25. maí 2017.

Nýjast