13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Hús vikunnar: Lundargata 2
Við fáar götur á Akureyri er meðalaldur húsa drýgri en við Lundargötu. Brunar og niðurrif hafa sett mark sitt á þessa skemmtilegu og áhugaverðu götu en þar standa nú tíu hús. Átta af þessum tíu húsum við Lundargötu eru byggð fyrir 1900 og er Lundargata 2 þeirra elst, ríflega 140 ára.
Lundargata 2 er einlyft timburhús á lágum steingrunni, með háu risi og miðjukvistum. Á bakhlið er kvistur með einhalla þaki, en á framhlið er hár kvistur með flötum kanti. Stendur hann upp úr þekjunni, eins konar turn og setur mikinn og skemmtilegan svip á húsið. Í gluggum hússins eru sexrúðupóstar, bárujárn á þaki og timburklæðning, svokölluð listasúð á veggjum.
Lundargötu 2 byggði Jósef Jóhannesson járnsmiður árið 1879. Reisti hann húsið um 15 metrum sunnar, við Strandgötu 23, og sneri framhlið til suðurs. Ásamt byggingaleyfi fékk Jósef leyfi til veitinga- og greiðasölu; seldi í húsinu m.a. kaffi, mat, vín og gistingu. Fjórum árum síðar seldi Jóhannes húsið norskum síldarútgerðarmanni að nafni Oules Hausken. Var húsið síðan nefnt Hauskenshús. Sem áður segir stóð húsið upprunalega lítið eitt sunnar en nú, við Strandgötu. Árið 1902 var húsið flutt og því snúið um 90°, framhlið til vesturs, þar sem það hefur staðið síðan. Fyrir þeirri framkvæmd stóð Medúsalem Jóhannesson, þáverandi eigandi hússins.
Líkt og nærri má geta eru eigendur og íbúar Lundargötu orðnir ansi margir á 14 áratugum. Húsið þjónaði um skeið, á níunda áratug 19. aldar, sem barnaskólahús fyrir Oddeyri. Á fyrstu áratugum 20. aldar munu nokkrar fjölskyldur hafa búið þarna samtímis, stök herbergi voru leigð út, en síðustu áratugi hefur húsið verið einbýli. Húsið hlaut gagngerar endurbætur á 10. áratug 20. aldar og hefur æ síðan fengið óaðfinnanlegt viðhald. Lundargata 2 er til mikillar prýði og setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt. Myndin er tekin 24. febrúar 2019.