Hús vikunnar: Hamrar II

Í síðustu viku var eldra íbúðarhúsið á Hömrum norðan Kjarna til umfjöllunar. Yngra húsið, Hamrar II, stendur á hól eilítið neðar og austar og blasir við hverjum þeim sem leið eiga um heimreiðina á svæðið.

Hamrar II er einlyft timburhús á lágum steyptum grunni og með háu risi. Húsið er tvær álmur og snýr önnur þeirra gafli til austurs. Veggir eru timburklæddir en bárujárn er á þaki. Vestari álman snýr norður-suður og er risið eilítið hærra á þeim hluta hússins. Húsið byggði Stefán Jóhannsson árið 1958, en hann hóf þá búskap á hálfu Hamralandinu á móti foreldrum sínum, Jóhanni Jósefssyni og Jónínu Rósu Stefánsdóttur. Á næstu árum reisti hann einnig fjós og mjólkurhús og stóra steinsteypta hlöðu. Árið 1970 taldi áhöfn Hamra II 15 kýr, 14 geldneyti, 14 fjár, 2 hross og 2 gyltur. Síðast voru Hamrajarðirnar einungis nýttar undir hross, en hér var búið til 1990.

Árið 1992 fengu skátar afnot af húsinu sem útileguskála. Uppbyggingarsaga Hamrasvæðisins sl. aldarfjórðung, frá hrossahögum í eitt fullkomnasta tjaldsvæði á landinu, gæti hæglega fyllt heila blaðaopnu (eða heila bók!). Hamrar II skemmdist lítillega í bruna í ágúst 1998 en var allt endurbyggt frá grunni árin á eftir og er þannig nú sem nýtt. Endurbótum á húsinu var að mestu lokið við opnun Tjaldsvæðisins á Hömrum í lok júní 2000. Eftir endurbætur var húsið nýtt sem útileguskáli og skátaheimili á vetrum, en skrifstofa og starfsmannaaðstaða fyrir tjaldsvæðin á sumrin. Síðastliðin ár hafa Hamrar II h.u.b. alfarið verið nýttir sem gistiaðstaða fyrir ferðamenn, sem nú sækja Hamra árið um kring. Myndin er tekin þann 18. júní 2013.

Nýjast