Hús vikunnar: Hafnarstræti 96; París.

Í síðustu viku vorum við stödd við Hafnarstræti 94 eða Hamborg og þá liggur beinast við að færa sig að næsta húsi, Hafnarstræti 96, sem einnig er nefnt eftir heimsborg eða sjálfri París. En Hafnarstræti 96 byggði Sigvaldi Þorsteinsson stórkaupmaður árið 1913. Hann var bróðir Jóhannesar kaupmanns, sem byggði einmitt Hafnarstræti 94, fjórum árum áður, og saman höfðu þeir bræður byggt Aðalstræti 10 eða Berlín árið 1902.  Hafnarstræti 96 er tvílyft bárujárnsklætt timburhús á háum kjallara, með háu risi og miðjukvisti og hornturnum. Húsið er bæði svipmikið og skrautlegt, þríhyrndir póstar yfir gluggum, útskurður á kvisti og svo auðvitað turnarnir sem gefa húsinu sitt einstæða sérkenni.

Húsið er byggt sem verslunarhús og opnaði Sigvaldi þarna verslunina París. Sú verslun mun hafa verið sú fyrsta á Akureyri sem skipt var í tvær deildir, þannig að matvara o.þ.h. var aðskilið frá vefnaðarvöru, búsáhöldum o.fl. Sigvaldi rak verslunina fram yfir 1930 og fluttist þá til Danmerkur en ýmsar verslanir hafa verið í húsinu eftir það, auk þess sem búið var á efri hæðum. Margir muna eftir klæðaverslun Sigurðar Guðmundssonar á efri hæð og blómabúðinni Laufási á neðri hæð. Að ógleymdri leikfangaversluninni í norðurhelmingi neðri hæðar, í daglegu tali kölluð „Siggi Gúmm“. Frá 1998 hefur hið valinkunna kaffihús, Bláa kannan verið rekið á neðri hæð og frá 2003 Græni Hatturinn í kjallara. Hafnarstræti 96, París, var friðlýst árið 2007. 

Meðfylgjandi mynd er 12 ára gömul, tekin í febrúar 2007, en Hafnarstræti 96 hefur lítið breyst á þeim tíma. Aðra sögu er að segja af húsinu til vinstri á myndinni, Hafnarstræti 98, sem tekið hefur gagngerum breytingum. Hafnarstræti 98 verður hús næstu viku.

Nýjast