Hús vikunnar: Hafnarstræti 86a

Umfjöllun þessi er ekki skipulagðari en svo, að greinarhöfundur ákveður aðeins frá viku til viku, hvaða hús skal tekið fyrir næst. Á Facebook-hópnum Gamlar myndir af Akureyri birtist í vikunni mynd af húsi einu við Hafnarstræti, sem er aldargamalt í ár. Ég áleit upplagt, að það skyldi verða næsta Hús vikunnar. Um er að ræða Hafnarstræti 86a.

Hafnarstræti 86a er tvílyft timburhús með háu risi og miðjukvisti. Veggir og þak eru bárujárnsklædd og krosspóstar í gluggum. Á suðurstafni eru svalir á efri hæðum. Húsið var allt endurbyggt frá grunni árin 2010-12. Þrjár íbúðir eru í húsinu, ein á hverri hæð.

Hafnarstræti 86a reisti Jóhann Ragúels kaupmaður árið 1920. Stundaði hann verslunarrekstur á neðri hæð en bjó á efri hæðum. Verslaði hann með tóbak, sælgæti og ýmis konar smávöru. Hann bjó í húsinu til æviloka, árið 1942, eða í 22 ár. Jóhann og kona hans, Guðrún Davíðsdóttir, önnuðust einnig bókavörslu á Amtsbókasafninu um svipað leyti. Neðri hæð hússins var síðar breytt í íbúðarrými. Margir bjuggu í húsinu um lengri eða skemmri tíma fram eftir 20. öld.

Um 2005 stóð húsið orðið autt, og höfðu þá lengi verið uppi áform um niðurrif þess. Snemma árs 2008 skemmdist húsið mikið í heitavatnsleka, og taldi sá sem þetta ritar, fullvíst að húsið fengi að fjúka. En undirritaður hafði þar rangt fyrir sér, einu sinni sem oftar. En um 2010 hófust gagngerar endurbætur á húsinu. Var húsið allt endurnýjað að utan sem innan, m.a. stigahús á austurhlið rifið og asbestklæðningu skipt út fyrir bárujárn. Ekki þarf að fjölyrða um það, að viðgerðir þessar tókust stórkostlega, svosem meðfylgjandi mynd ber með sér. Hún er einmitt tekin skömmu eftir að endurbótum lauk, eða 30. júní 2012. 

Nýjast