Hús vikunnar: Hafnarstræti 86 (Verslunin Eyjafjörður)

Í síðustu viku vorum við stödd við Hafnarstræti 86a, aldargamalt, reisulegt timburhús og nú færum við okkur að næsta húsi norðan við, Hafnarstræti 86.

Hafnarstræti 86 reistu byggingarmeistararnir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Eyjólfsson fyrir Ólaf Eyjólfsson árið 1903. Sigtryggur og Jónas voru mjög umsvifamiklir í húsbyggingum í upphafi síðustu aldar og byggðu mörg stórhýsi, sem flest standa enn, auk þess að reka timburverslun. Mörg húsanna komu tilhöggvin frá Noregi og mun Hafnarstræti 86 hafa verið eitt þeirra.  Húsið er tvílyft plankabyggt timburhús með háu risi og miðjukvistum, auk smærri kvists norðan megin á framhlið. Á bakhlið er kvisturinn „útstæður“ og neðan við hann útskot, jafn hátt húsinu. Á suðurgafli er einning útskot með svölum og sólskálum og er það mjög prýtt útskurði og skrautlegum „pilum“ í svalahandriði. Allt er húsið bárujárnsklætt, bæði veggir og þak.

Skömmu eftir að húsið var byggt eignaðist það hinn valinkunni athafnamaður Magnús Sigurðsson á Grund og rak þar verslun sína um nokkura ára skeið. Kristján Árnason, sem unnið hafði í Grundarverslun eignaðist húsið á 2. áratug 20. aldar og rak þar verslun sína, Verslunina Eyjafjörð, um langt árabil. Síðar tók Gunnar, sonur Kristjáns, við rekstri verslunarinnar. Hann stækkaði við verslunina og byggði við húsið til norðurs árið 1939. Sú bygging var rifin um 1990. Ýmsar verslanir voru í húsinu og viðbyggingunni eftir tíð Verslunarinar Eyjafjarðar, sem starfrækt var fram yfir 1960. Má þar nefna m.a.  bíla- og vélasölu, sjónvarpstækjaverslun og tískuvöruverslun. Síðustu áratugi hefur húsið verið íbúðarhús að öllu leyti, og nú eru í því fjórar íbúðir. 

Hafnarstræti 86 er eitt af reisulegri og skrautlegri timburhúsum bæjarins og sannkölluð miðbæjarprýði. Svalir og sólskálar á suðurhlið og kvistir gefa því einstaklega skemmtilegan svip. Myndin er tekin fyrir áratug, 6. mars 2010.

Nýjast