Hús vikunnar: Gránufélagsgata 39-41
Í síðustu viku var umfjöllunarefnið Gránufélagshúsin við Strandgötu og þar kom fram, að gata á Oddeyrinni væri kennd við Gránufélagið, Gránufélagsgata. Við götuna stendur eitt af fyrstu skipulögðu fjölbýlishúsum Akureyrar, Gránufélagsgata 39-41. Er það byggt í samræmi við fyrsta aðalskipulag sem samþykkt var fyrir Akureyri árið 1927. Húsið er raunar þrjú sambyggð hús eða stigagangar (stundum kallað Sambyggingin) og er vestasti hlutinn nr. 39, miðhlutinn 41a og austasti hlutinn 41.
Gránufélagsgata 39-41 er þrílyft steinsteypuhús með háu risi/valmaþaki, bárujárni á þaki og krosspóstum í gluggum. Jarðhæð er örlítið niðurgrafin, en hæpið að tala um kjallara í því samhengi. Á þekju framhliðar eru sex smáir kvistir.
Einhverjir kynna að ætla, að bærinn eða byggingafélag hefði staðið fyrir byggingu hússins, en raunar voru það aðeins tveir aðilar, þeir Jón Kristjánsson ökumaður og Steinþór Baldvinsson skipasmiður sem reistu húsið á árunum 1928-30. Jón byggði vestari hlutann, þ.e. nr. 39 og 41a en eystri hlutann, 41, reisti Steinþór. Sá síðarnefndi seldi sinn hluta hússins árið 1935. Íbúðafjöldi hefur sjálfsagt verið nokkuð breytilegur í gegn um tíðina, en líklega hafa verið 2-4 íbúðir í hverjum hluta.
Árið 1958, þegar miðhluti er auglýstur til sölu, eru þar tvær íbúðir. Eins og gefur að skilja með fjölbýlishús hefur fjöldi manns átt þarna íbúðir og búið um lengri eða skemmri tíma, sumar íbúðir í eigu sömu fjölskyldna áratugum saman. Húsið er nánast óbreytt frá upphaflegri gerð og er í góðri hirðu (m.a. var þakklæðning endurnýjuð fyrir fáum árum) og til mikillar prýði. Það er umtalsvert stærra en nærliggjandi hús og er þannig ákveðið kennileiti á Eyrinni. Nú munu vera alls sjö íbúðir í húsinu. Myndin er tekin sl. laugardag, 26. október 2019