Hús vikunnar: Brekkugata 12
Val á „Húsum vikunnar“ hverju sinni er yfirleitt tilviljanakennt, og ræðst í þessari viku af titli kvikmyndar (!). Síðastliðinn fimmtudag fór undirritaður í bíó og sá stórmyndina 1917, sem gerist í fyrri heimstyrjöld, og ákvað um leið að næst skyldi tekið fyrir hús byggt 1917. Það á við um Brekkugötu 12.
Brekkugata 12 er einlyft steinsteypuhús með portbyggðu risi og miðjukvisti að framan og smærri kvisti á bakhlið. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir og krosspóstar eru í gluggum. Steypt múrhleðslueftirlíking á hornum og á miðjukvisti, setur skemmtilegan svip á húsið.
Brekkugata 12 var reist á vegum slökkviliðs Akureyrar. Húsið er teiknað og byggt sem slökkvistöð og áhaldageymsla vatnsveitu, eftir teikningum Antons Jónssonar slökkviliðsstjóra. Í Fasteignamati árið 1918 er húsinu lýst, það metið og sagt vera slökkvitækja og íbúðarhús með járnklæddu þaki, einlyft á kjallara með porti og risi, 11,6x7,5m að stærð. Í húsinu voru 3 geymsluherbergi fyrir slökkvitæki og vatnsveituáhöld en alls 10 íbúðarherbergi á lofti og í kjallara. Neðri hæð hússins var þannig nýtt fyrir slökkvi- og vatnsveituáhöld. Leigjendur árið 1918 voru þeir Karl Wilhelmsson kaupmaður og Friðrik Sigurgeirsson ökumaður og húsið sagt standa á landleigu bæjarins og hefði enga afmarkaða lóð. Þá er númer hússins 18, en það hefur líklega breyst fljótlega eftir að húsaröðin nr. 4-10 tók að byggjast (1923-25).
Árið 1930 keypti Jón Stefánsson kaupmaður húsið og fluttist slökkviliðið þá í bárujárnsbyggingu við Kaupangsstræti. (Slökkvistöðin við Geislagötu, sem nú hýsir skrifstofur Akureyrarbæjar reis löngu síðar). Á 4. og 5. áratugnum starfrækti Eggert Stefánsson þarna heildsöluskrifstofu, en hann hafði m.a. umboð fyrir Efnagerð Reykjavíkur. Ytra útlit hússins er í stórum dráttum næsta lítið breytt frá upphafi. Er það í góðri hirðu og til mikillar prýði í umhverfinu. Þrjár íbúðir munu í húsinu. Myndin er tekin 18. september 2017.