Hús vikunnar: Aðalstræti 2

Í síðasta pistli kom fram að fá hús hefðu tekið viðlíkum breytingum frá upphafi og Brekkugata 3. Eitt þeirra fáu húsa gæti verið Aðalstræti 2, en þar erum við stödd í pistli vikunnar. Húsið er raunar tvær álmur; suðurhluti er tvílyft timburhús (hluti hússins raunar steinsteyptur) á lágum grunni með háu portbyggðu risi og kvistum á framhlið. Þar af er stór gaflkvistur á suðurstafni og þar eru svalir. Norðurhluti er tvílyftur með lágu risi og snýr A-V. Krosspóstar eru í gluggum og nýlegt bárujárn á þaki og allt er húsið múrhúðað með steiningarklæðningu.

Aðalstræti 2 er eitt af allra elstu húsum Akureyrar, en elsta hluta hússins byggði Gunnlaugur Guttormsson verslunarmaður um 1850. Var húsið þá einfalt, einlyft timburhús með háu risi. Um 1886 mun húsið hafa verið hækkað um eina hæð og árið 1899 var byggt við húsið til norðurs og varð sú bygging síðar sérstakur eignarhluti, 2b.  Fimm árum síðar var viðbygging hækkuð um eina hæð. Á þriðja áratugnum réðst þáverandi eigandi, Sigmundur Sigurðsson úrsmiður, í miklar breytingar á húsinu breikkaði það um þrjá metra til vesturs, og byggði upp rishæð með kvistum. Fékk húsið þá að mestu það lag sem það síðan hefur. Um svipað leyti voru byggðar tröppur framan við norðurhluta og verslunarrými innréttað þar undir og í kjallara. Síðar var húsið allt múrhúðað með steiningu (stundum kölluð skeljasandur).

Aðalstræti 2 er stórbrotið og reisulegt hús sem á sér langa og merka sögu. Í húsinu hefur m.a. verið úrsmíðaverkstæði, sportvöruverslun og árið 1939 var verslunin Brynja stofnsett í norðurhluta hússins. Þá var þarna barnaskóli um skamma hríð á ofanverðri 19. öld. Nú eru alls fjórar íbúðir í húsinu, þrjár í suðurhluta og ein í norðurhluta. Myndin er tekin þann 19. júní 2014.

Nýjast