13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Hús vikunnar: Aðalstræti 10; Berlín
Síðustu vikur hef ég lagt nokkra áherslu á hús sem hafa viðurnefni, bæja- eða borgarheiti, þrátt fyrir að hafa frá upphafi staðið við götur og með númer. Mörg hús bera bæjarnöfn en nokkrar erlendar heimsborgir eiga sér „nöfnur“ á meðal Akureyrarhúsa. Við Aðalstræti númer 10 má til dæmis finna Berlín.
Aðalstræti 10 er tvílyft timburhús á steinhlöðnum kjallara, timburklætt, með bárujárn á á þaki og krosspóstum í gluggum. Á suðurhlið er forstofubygging með svölum og einnig er útskot á bakhlið. Húsið byggðu byggingameistararnir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson árið 1902, fyrir bræðurna Jóhannes og Sigvalda Þorsteinssyni. Ráku þeir bræður verslun á neðri hæð sem kölluð var Sigvaldabúð en einnig Berlín og er húsið enn þekkt undir því nafni rúmum 100 árum síðar. Verslunin mun hafa starfað þarna í um tvo áratugi en um 1920 var neðri hæð breytt í íbúð. Nú eru tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Húsið var nokkuð hætt komið þegar stórhýsið Hótel Akureyri, Aðalstræti 12, brann til grunna árið 1955.
Aðalstræti 10 er stórglæsilegt hús og til mikillar prýði og í Húsakönnun Minjastofnunar 2012 er húsið sagt einstakt hús í einstakri götumynd sem njóti skuli hverfisverndar. Húsið er í mjög góðri hirðu og hefur, líkt og flestöll eldri hús í Innbænum hlotið miklar endurbætur á síðustu árum og áratugum. Myndin er tekin þann 31. júlí 2010, í forgrunni eru þátttakendur í afar fróðlegri og skemmtilegri sögugöngu um Innbæinn sem Gísli Sigurgeirsson leiddi með glæsibrag.
Lesendum er velkomið að senda höfundi fyrirspurnir, ábendingar eða annað slíkt á póstfangið hallmundsson@gmail.com