Hús dagsins: Strandgata 23
Í síðustu viku gat undirritaður þess, að Strandgata 35 hafi áður verið klætt steinskífu. Einhverjir kunna að spyrja: Hvað er steinskífa ? Því er best svarað á þessum vettvangi með umfjöllun um hús sem er með slíkri klæðningu. En við Strandgötu 23 stendur einmitt veglegt timburhús frá upphafi 20. aldar, sem skartar steinskífuklæðningu.
Strandgötu 23, byggði Metúsalem Jóhannesson kaupmaður, árið 1906. Húsið er tvílyft timburhús á háum kjallara með háu risi og miðjukvisti og svölum undir honum. Miðjukvist, prýðir útskorið skraut. Steinskífa er á veggjum en bárujárn á þaki, en lengi vel var einnig skífuklæðning á þaki.
Húsið var frá upphafi verslunar- og íbúðarhús og verslaði téður Metúsalem þarna lengi og margir síðar. Á 114 árum hefur ýmis konar verslun og þjónusta verið starfrækt í húsinu sem og í viðbyggingu, sem lá meðfram Lundargötu (rifin um 2000). Má þar nefna t.d. Atlabúðina, Kjöt og Fisk og hinn valinkunna Diddabar, svo fátt eitt sé nefnt. Nú eru í húsinu þrjár íbúðir, skrifstofa Ferðafélags Akureyrar á neðri hæð og í kjallara og samkomusalur á efri hæð.
Strandgata 23 er með reisulegri og skrautlegri húsum við Strandgötu og er til mikillar prýði. Útskurður á kvisti og skífuklæðningin gefa húsinu sérstakan og glæsilegan svip. Skífurnar mynda sérstætt munstur (sem kann að minna á hreistur) og gefa húsinu þannig sérstætt og skemmtilegt yfirbragð. Steinskífuklæðning prýddi þó nokkur hús hér í bæ, en var e.t.v. ekki mjög algeng. Í mörgum tilfellum hefur steinskífu verið skipt út fyrir aðra klæðningu en einnig hafa nokkur steinskífuklædd hús verið rifin. Hafnarstræti 103 (síðast skóbúð M.H. Lyngdal, rifið 1998) og Snorrahús við Strandgötu 29 (rifið 1987) voru steinskífuklædd. Nú er greinarhöfundi aðeins kunnugt um tvö hús á Akureyri sem klædd eru steinskífu. Ætli þá sé ekki gráupplagt, að taka fyrir hitt steinskífuhús bæjarins í næstu viku...(Meðfylgjandi mynd er tekin 5. júní 2006).