Hörgársveit krefst rafmagnslínu í jörð
Sveitarstjórn Hörgársveitar eru það mikil vonbrigði að það óveður sem gekk yfir landið í síðustu viku hafi valdið þeim mikla vanda og tjóni sem varð. Í Hörgárdal og Öxnadal var rafmagnslaust í nær fjóra sólarhringa þar sem það skorti lengst. Þetta kemur fram í bókun Hörgársveitar.
Þar segir að ljóst sé að þær loftlínur raforku sem enn eru í sveitarfélaginu eru á engan hátt tilbúnar að mæta miklum vetrarveðrum eða hvassviðri og staðsetning hluta þeirra í gegnum þéttan trjágróður er óásættanlegur.
„Því er algjörlega hafnað að farið verði í einhverjar framtíðarviðgerðir á þeim tveimur köflum loftlína í sveitarfélaginu sem nú brugðust. Krafan er að strax og hægt er, verði þessum línum komið í jörð. Það er krafa Hörgársveitar að RARIK og Landsnet sjái síðan til þess að allar þær loftlínur rafmagns sem í sveitarfélaginu eru, fari í jörð eins fljótt og mögulegt er. Á þetta við um allar sveitalínur, Dalvíkurlínu og núverandi byggðalínu. Allar þessar línur eru komnar til ára sinna og ljóst að þær standast ekki þær kröfur sem nútímasamfélag gerir varðandi raforkuöryggi.
Fjarskiptakerfi svæðisins þarf að yfirfara með því markmiði að aldrei komi upp sú staða að vegna skorts á fjarskiptum verði lífi stefnt í hættu. Það hefði getað gerst hér í sveitarfélaginu nú, þegar allt fjarskiptasamband lá niðri á ákveðnu svæði vegna rafmagnsleysis og neyðarafl var uppurið,“ segir m.a. í bókuninni.