Hörð gagnrýni minnihlutans á dagvistunarmálin
Minnihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar gagnrýndi harðlega meirihlutann í dagvistunarmálum bæjarins á síðasta bæjarstjórnarfundi og sagði aðgerðarleysi ríkjandi í málaflokknum. Formaður fræðsluráðs fór þá yfir starfsáætlun og stefnu í dagvistunarmálum á fundinum. Dagvistunarmálin voru einna mest áberandi fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar sl. vor. Börn hafa ekki fengið leikskólapláss vegna plássleysis og skortur hefur verið á dagvistunarúrræðum að loknu fæðingarorlofi. Bæjarfulltrúar minnihlutans segja lítið hafa gerst á því tæpa ári frá því að kosið var.
Mánaða yngri börn tekin inn og jöfnunargreiðslur til foreldra
Drög að nýrri menntastefnu tónlistar-,leik og grunnskóla liggja nú fyrir og hafa verið lögð fyrir fræðsluráð til samþykktar. Eitt af þeim verkefnum sem fræðsluráð stendur frammi fyrir er að styrkja dagforeldrakerfið og þá er stefnt að því að bjóða börnum fæddum í janúar, febrúar, mars og apríl 2018 leikskólapláss í haust. Er það mánuði yngri börnum en árið áður. Þá verða jöfnunargreiðslur til foreldra barna 17 mánaða og eldri hjá dagforeldrum til jafns við kostnað á leikskólum. Þá er áætlað að bæta við tveimur færanlegum kennslustofum við Lundarsel. Sú viðbót gefur bænum um 40-44 auka rými en koma á aðstöðunni upp fyrir 1. september. Byggja á nýjan leikskóla á Glerárskólareitnum sem taka á í notkun haustið 2021. Um er að ræða sjö deilda leikskóla fyrir 144 börn, þar af er gert ráð fyrir tveimur ungbarnadeildum. Nýjum skóla er m.a. ætlað að leysa af hólmi efra húsið í Pálmholti en gert er ráð fyrir að rekstur neðra hússins falli undir Lundarsel.
Segja skort á sýn og stefnubreytingu í málaflokknum
Í umræðum á bæjarstjórnarfundi voru bæjarfulltrúar minnihlutans harðorðir. Gunnar Gíslason oddviti Sjálfstæðisflokksins lýsti undrun sinni á stefnuleysi meirihlutans í dagvistunarmálum og kallaði eftir skýrari sýn á málið. „Ég sé engin merki þess að það sé nokkur stefnubreyting í vændum. Það eru endalausir plástrar hér og þar. Mér finnst algjörlega út úr korti hvert er verið að leiða okkur í þessum málum,“ sagði Gunnar. Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði algjört stefnuleysi ríkja í málaflokknum og það væri til skammar að sýnina skuli vanta. „Hvenær ætlum við að ná því út úr umræðunni að hér sé ókleift að fá dagvistunarpláss því þetta er að skaða ímynd bæjarins,“ sagði Eva Hrund.
Sóley Björk Stefánsdóttir oddviti Vg sagði stefnuna í málflokknum tómlega. Hún minnti á að málefnið var það stærsta fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og aðkomuleysi kjörinna fulltrúa að málaflokknum væri áhyggjuefni. Hlynur Jóhannsson oddviti Miðflokksins sagði það sæta furðu að bæjaryfirvöld væru ekki komin lengra með málið. „Þetta er grafalvarlegt mál. Það er ár síðan kosningar voru og nánast ekkert að gerast. Við eigum ekki að sætta okkur við að vinna á þessum hraða,“ sagði Hlynur.