Hollvinir gefa tæki og búnað fyrir 20 milljónir króna

Með tilkomu þeirra tækja sem Hollvinir munu fjármagna á árinu til SAk opnast möguleikar á að framkvæ…
Með tilkomu þeirra tækja sem Hollvinir munu fjármagna á árinu til SAk opnast möguleikar á að framkvæma aðgerðir á Akureyri þar sem sjúklingar þurftu áður að fara til Reykjavíkur.

Á stjórnarfundi Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri þann 27. mars síðastliðinn var ákveðið að veita fé til kaupa á tækjum og búnaði sem alls kosta um 20 milljónir kr. Um er að ræða leysitæki til steinbrota í þvagfærum, leysitæki til æðahnútaaðgerða og fleira, ómhaus til greininga á meinum í endaþarmi með þrívíddarskönnun, rafdrifnar dælur til meðferðar á lofbrjósti og verkfæri til notkunar í brjóstholsspeglunum.

Með tilkomu þessara tækja opnast möguleikar á að framkvæma aðgerðir á SAk þar sem sjúklingar þurftu áður að fara til Reykjavíkur, segir á vef SAk. Einnig munu tækin bæta greiningu og veita betri meðferð.

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á SAk, segir í pistli á vef Sjúkrahússins að framlög Hollvina séu, „ómetanleg í að gera starfsfólki SAk kleift að veita bestu mögulegu þjónustu.“

Megintilgangur Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri er að safna fé til kaupa á tækjum og búnaði til notkunar á sjúkrahúsinu í samráði við framkvæmdastjóra lækninga.

Nýjast