Höldur valið Menntafyrirtæki ársins

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Þórdís Bjarnadóttir, bókanastjóri og fyrsti skólastjóri Mann…
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Þórdís Bjarnadóttir, bókanastjóri og fyrsti skólastjóri Mannauðsskóla Hölds, Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, Geir Kristinn Aðalsteinsson, mannauðsstjóri Hölds, Sigrún Árnadóttir verkefnastjóri hjá Höldi og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt á dögunum þeim fyrirtækjum sem skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála. Höldur á Akureyri er Menntafyrirtæki ársins og Friðheimar í Bláskógabyggð er Menntasproti ársins. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu.

Í umsögn segir að Höldur sé öflugt og rótgróið ferðaþjónustufyrirtæki sem starfi um land allt. „Höldur rekur Bílaleigu Akureyrar sem er stærsta bílaleiga landsins með tuttugu og þrjú útibú. Flotinn telur um 4.500 bíla og fyrirtækið er einn stærsti bílakaupandi landsins auk þess að veita fjölbreytta þjónustu. Um 240 starfsmenn eru hjá Höldi allt árið og á fjórða hundrað þegar mest er að gera yfir sumartímann. Störfin eru af ýmsum toga en fræðsla og markviss þjálfun er lykillinn að góðum rekstri,“ segir um fyrirtækið.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, tók við verðlaununum og sagði þau mikla hvatningu og að hann tæki við þeim af þakklæti og stolti fyrir hönd starfsfólks Hölds. „Við hjá Höldi lítum á að það sé fjárfesting til framtíðar að mennta og styðja starfsfólk okkar til náms og gera það þannig hæfara til að sinna sínu, bæði í leik og starfi. Það styrkir viðkomandi einstaklinga og eykur almenna ánægju sem skilar sér í betri þjónustu til viðskiptavina okkar,“ sagði Steingrímur og bætti við. „Án virks mannauðs eru fyrirtækin lítið annað en innantóm orð, í raun bara umbúðir og það er okkar, stjórnendanna að búa svo um hnútana að innihaldið geti vaxið og dafnað, öllum til hagsbóta.“

 

Nýjast