„Höfum náð meirihluta markmiðanna“

Íbúafundirnir voru vel sóttir af heimafólki og fulltrúum Akureyrarbæjar. Myndin er frá fundinum í Hr…
Íbúafundirnir voru vel sóttir af heimafólki og fulltrúum Akureyrarbæjar. Myndin er frá fundinum í Hrísey. Mynd/Þórgnýr Dýrfjörð.

Íbúafundir voru haldnir í Hrísey og Grímsey á dögunum á vegum verkefnisins „Brothættar byggðir“. Á fundunum fór Helga Íris Ingólfsdóttir, verkefnisstjóri brothættra byggða í Hrísey og Grímsey, yfir stöðu mála. Vel var mætt á fundina en í Hrísey mættum um 40 heimamenn og 20 í Grímsey.

Meðal nýrra aðgerða í Hrísey sem samþykkt var að bæta inn í verkefnið voru ljósleiðari til Hríseyjar, átak í markaðssetningu með fjölgun íbúa og atvinnutækifæra að leiðarljósi og að efla Hlein sem vinnuaðstöðu fyrir sjálfstætt starfandi fólk eða þá sem stunda fjarvinnu. Á fundinum í Grímsey voru m.a. ræddar ýmsar leiðir til að glæða Grímsey lífi og renna styrkari stoðum undir búsetu þar. Í mörgum af stóru markmiðunum í Grímsey hefur gengið vel. Komið er betra net- og símsamband, ferðum ferjunnar hefur fjölgað og kominn á afsláttur til íbúa af flugfargjöldum. Þau málefni sem efst eru á baugi núna í Grímsey snúi að fækkun barnafjölskyldna í eyjunni og þeim áskorunum sem fylgja því, segir á vef Akureyrarbæjar.

Hefur skilað góðum árangri

Helga Íris Ingólfsdóttir segir í samtali við Vikudag að staðan í eyjunum tveimur sé þokkalega góð. „Fólk er ágætlega bjartsýnt heilt yfir. Það er mín upplifun. Við settum okkur markmið í upphafi fyrir báðar eyjarnar og á báðum stöðum höfum við náð meirihluta markmiðanna. Í Grímsey hafa stórir hlutir gerst eins og bætt netsamband og fleiri ferjuferðir. Ég myndi segja að verkefnið hafi skilað góðum árangri. Það kom t.d. fram á fundinum í Grímsey að fólk var mjög þakklátt og við í verkefnastjórnun erum nokkuð ánægð með árangurinn. En það þýðir ekki að það megi ekki gera betur,“ segir Helga Íris.

Árið 2019 er það síðasta í verkefninu og segir Helga að mikilvægt sé að nýta tímann vel. „Við viljum spýta í lófana og fá sveitarfélagið meira í lið með okkur til að klára ýmislegt og standa betur við verkefnið,“ segir Helga Íris.

Nýjast