Hjartað í Vaðlaheiðinni mun slá á ný
Prófanir á ledljósum sem á að nota í verkefnið „Hjartað í heiðinni“ standa nú yfir hjá Rafeyri en stefnt er að því hjartað slái á ný í náinni framtíð. Eins og flestir eflaust muna þá fólst það verkefni í að sett voru upp rauð ljós í Vaðlaheiði sem mynduðu hjarta á stærð við fótboltavöll og styrkur þeirra minnkaði og jókst í ákveðnum takt til að minna á hjartslátt. Rafeyri stóð að því að koma hjartanu fyrir og nú stendur yfir vinna undir forystu fyrirtækisins um að koma hjartanu aftur í gang.
Hjartað fór fyrst af stað árið 2008 og svo aftur veturinn 2009/2010. Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður Akureyrarstofu, segir að verkefnið hafi í raun aldrei stoppað. „Það hefur ekki farið mikið fyrir því undanfarið en nú leiðir Rafeyri vinnuna um að koma því aftur í gang,“ segir Þórgnýr en fyrirtækið var helsti frumkvöðullinn að málinu á sínum tíma ásamt fleiri fyrirtækjum í samstarfi við Akureyrarbæ. „Rafeyri hefur verið í þróunarvinnu um verkefnið og vilja smíða sjálfir ljósið og húsið utan um það. Ljósin verða sett á mun stöndugri undirstöður, þannig að það verður mun meira lagt í þetta núna,“ segir Þórgnýr.
Gangi allt að óskum gæti hjartað farið af stað á ný árið 2020. Þórgnýr segir að hugmyndin sé að safnað verði fjármagni fyrir framkvæmdinni og nokkur fyrirtæki hafa lýst yfir vilja til að leggja til vinnu við að koma hjartanu upp og á Akureyrarstofa fulltrúa í undirbúningshópi f.h. bæjarins. Þegar Hjartað fór upp árið 2008 vakti það mikla ánægju meðal bæjarbúa og segist Þórgnýr enn merkja mikinn áhuga frá bæjarbúum.
„Í hvert skipti sem þetta er nefnt þá finnst okkur koma bylgja áhuga og hlýju og fólk talar mikið um hjartað. Þótt langt sé síðan ljósin loguðu síðast þá virðist það eiga sér marga fylgjendur,“ segir Þórgnýr.