Harmar slæmt aðgengi fyrir fatlaða að Heilsugæslunni

Á Heilsugæslunni á Akureyri er aðeins tryggt aðgengi að efstu hæðinni fyrir fólk í hjólastól.
Á Heilsugæslunni á Akureyri er aðeins tryggt aðgengi að efstu hæðinni fyrir fólk í hjólastól.

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, harmar að aðeins sé tryggt aðgengi fyrir fólk í hjólastól að einni hæð af fjórum á Heilsugæslunni á Akureyri. Eins og fjallað var um í síðasta blaði er lyftan í Amorhúsinu orðin léleg. Vegna vanstillingar stoppar hún ekki á réttum stað, oft munar nokkrum sentimetrum, fyrir ofan eða neðan brún og dæmi um að fólk í hjólastól hafi lent í vandræðum.

Móðir stúlku í hjólastól sagði í viðtali í blaðinu í síðustu viku að dóttir hennar hefði þurft aðstoð frá viðgerðarmanni til að komast úr lyftunni þar sem hún sat þar föst. Vandamálið með lyftuna sé alls ekki nýtt af nálinni. Jón Helgi kannaðist við vandamálið varðandi lyftuna þegar Vikudagur leitaði viðbragða hjá honum. Hann segir lyftuna hafa öll tilskilin leyfi en málið sé bagalegt.

„Þetta er algjörlega óboðleg aðstaða og það er miður að staðan sé svona. Oft kemur eitthvað ólag í lyftuna og þá þarf að eiga við hana,“ segir Jón Helgi.

Ill mögulegt að koma fyrir lyftu sem stenst allar kröfur

Jón Helgi segir að húsfélagið sé ábyrgt fyrir því að hafa þessi hluti í lagi. Ríkiseignir eiga fjórar efstu hæðirnar á Heilsugæslunni á Akureyri og ýmsir aðilar sem eiga neðstu hæðirnar tvær. Því sé málið ekki einfalt þegar kemur að því að fá fram dýra fjárfestingu hjá húsfélaginu. „Raunin virðist líka vera sú að það sé ill mögulegt koma lyftu fyrir í húsnæðinu sem stenst allar kröfur. Hins vegar er ekki hægt að skjóta heilbrigðisyfirvöldum undan þeirri ábyrgð að hafa aðstöðuna í lagi. En við erum að vinna í því að hafa lyftuna eins mikið í lagi og hún getur verið,“ segir Jón Helgi.

Hann segir áherslu lagða á að komast í nýtt húsnæði sem fyrst. Nú standi yfir þarfaáætlun og húsrýmisáætlun fyrir tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri. Reiknað sé með að þeirri vinnu ljúki í maí. Þá sé HSN að vinna með bæjaryfirvöldum í að finna staðsetningu fyrir heilsugæslustöðvar.  Jón Helgi ítrekar að það hefði fyrir löngu verið tímabært að fara úr húsnæðinu. „Heilsugæslan hefur verið alltof lengi á þessum stað. Það er staðreynd málsins.“

Nýjast