13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Handverkshátíðinni í Eyjafjarðarsveit aflýst í ár
Handverkshátíðinni í Eyjafjarðarsveit sem fara átti fram í sumar hefur verið frestað til ársins 2021 vegna kórónuveirunnar. Hátíðin hefur verið haldin á hverju ári síðastliðin 28 ár. Um 10-15 þúsund gestir sækja hátíðina árlega heim og eru sýnendur yfir 100 talsins.
Þetta kemur fram á vef Eyjafarðarsveitar og þar segir að Handverkshátíðin sé ein helsta fjáröflun ýmissa félaga í sveitarfélaginu.
„Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hefur stjórn Handverkshátíðarinnar í samvinnu við aðildarfélög ákveðið að fresta hátíðinni fram til ársins 2021. Ákvörðunin var tekin að vel ígrunduðu máli í samráði við helstu samstarfsaðila. Ákvörðunin var erfið en nauðsynleg í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 faraldursins og útgefinna leiðbeininga um samkomur. Á hverju ári koma margir að uppsetningu Handverkshátíðarinnar og lítur stjórn svo á að það sé hennar ábyrgð og skylda að hlýða settum reglum og vernda starfsmenn sína, gesti og þátttakendur og koma í veg fyrir enn frekari smit í samfélaginu með því að fresta Handverkshátíðinni til næsta árs,“ segir á vef Eyjafjarðarsveitar.
Stjórn Handverkshátíðar hefur bókað að hefja strax undirbúning fyrir næsta ár og fer fram dagana 5.-8. ágúst 2021.