Hafdís með keppnisrétt á EM
Hafdís Sigurðardóttir hjá UFA hefur náð lágmarkinu til að öðlast keppnisrétt á Evrópumóti innanhúss í frjálsum íþróttum sem fram fer í Glasgow 1.-3. mars. Hafdís hafði tvívegis verið alveg við lágmarkið í langstökki með því að stökkva 6,49 metra á stórmóti ÍR og svo aftur sömu vegalengd tveim vikum síðar á Reykjavík International Games.
Lágmarkið inn á EM var 6,50 metrar og því var hún aðeins einum sentimetra frá því. Hafdís fékk hins vegar keppnisrétt eftir að Frjálsíþróttasamband Íslands sendi inn umsókn um þáttöku sem var samþykkt. Hafdís mun því keppa á EM ásamt Hlyni Andréssyni sem tryggði sér þáttöku í 3000 m hlaupi í vikunni.
Aníta Hinriksdóttir var líka komin með keppnisrétt í 800 m hlaupi, en getur ekki tekið þátt vegna meiðsla, segir á vef Frjálsíþróttasambandsins.