13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Hafa áhyggjur af loftgæðum á Eyrinni
Í síðasta fundi hverfisráðs Oddeyrar var rætt um loftgæði í hverfinu og kallað eftir loftgæðamæli og að brugðist verði við mengun frá skemmtiferðaskipum.
Í fundargerðinni segir að huga mætti frekar að loftgæðum á Oddeyrinni, t.d. koma upp einföldum loftgæðamælum við Iðavöll, Oddeyrarskóla eða Strandgötu. Þá væri t.d. hægt að hlífa börnum við útiveru þá daga sem loftgæði mælast slæm og senda vatnsbíl og sóp ef aðstæður leyfa.
„Hverfið er umlukt þungum umferðargötum á alla kanta, og ekki batnar það að sumarlagi þegar allt að fjögur skemmtiferðaskip spúa útblæstri yfir hverfið,“ segir í fundargerð. Vill hverfisnefndin athuga hvort raunhæft sé á næstu árum að tengja skemmtiferðaskip við landrafmagn.
Bent er á að á lognkyrrum sumardögum liggi dísil- og svartolíureykský stundum eins og mistur yfir Oddeyrinni þegar tvö eða þrjú skemmtiferðaskip liggja þar við bryggju.