20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Göngudeild SÁÁ á Akureyri lokar 1. mars
Göngudeild SÁÁ á Akureyri verður lokað um óákveðinn tíma frá og með 1. mars næstkomandi. Ekki hafa náðst samningar á milli samtakanna og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) en starfsemin var þó tryggð á fjárlögum í nóvember síðastliðinn. Þetta staðfestir Hörður Oddfríðarson, dagskrárstjóri deildarinnar, í samtali við Fréttablaðið. Þar segir að hann hafi fengið fyrirmæli frá framkvæmdastjórn SÁÁ og segir að samtökin hafi ekki efni að halda úti starfseminni í eigin reikningi.
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, skrifaði á Facebook að málið væri ömurlegt í alla staði og SÍ og SÁÁ virðast benda hver á annan sem sökudólg í málinu. „Svo bitnar sú deila auðvitað allt á þeim sem allra síst skyldi: skjólstæðingum í sárri neyð. Ég er svo svekkt, sár og reið yfir þessu máli að ég gæti hreinlega öskrað,“ skrifaði Hilda Jana.
Tilkynnt var um lokun deildarinnar í janúar í fyrra en ekkert varð úr því. Framtíð starfsemi deildarinnar var þó í lausu lofti allt síðasta ár, allt þar til hún var tryggð áfram á fjárlögum ársins 2019. Fól velferðarráðuneytið SÍ að ganga frá samningum um göngudeildarþjónustu á vegum SÁÁ fyrir norðan. Göngudeild SÁÁ hefur verið starfrækt á Akureyri frá 1993 og veitt ráðgjöf og greiningu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á Norðurlandi. Þá hefur fólk með spilafíkn einnig fengið aðstoð þar.